Farþegar Niceair í óvissu á Akureyri

Flugtak á Akureyrarflugvelli. Þegar farþegi hugðist innrita farangurinn var honum …
Flugtak á Akureyrarflugvelli. Þegar farþegi hugðist innrita farangurinn var honum sagt að það væri óvíst hvort, hvenær og hvert yrði flogið. mbl.is/Sigurður Bogi

Um sjötíu farþegar sem áttu bókað flug með Niceair til Lundúnaborgar, bíða nú á flugstöðinni á Akureyri. 

Einn farþeganna, sem vill ekki láta nafn síns getið, tjáði blaðamanni að það hafi ekkert heyrst frá flugfélaginu, en fréttatilkynning barst fjölmiðlum fyrir skömmu um að öllum flugferðum Niceair til London í júní yrði aflýst.

Óvíst hvort, hvenær og hvert verður flogið

Áætlað var að fljúga út klukkan korter í átta í morgun, en í gærkvöldi fengu farþegar skilaboð um að fluginu yrði seinkað til klukkan tólf að hádegi. 

Þegar farþeginn, sem ræddi við mbl.is, mætti á flugvöllinn og hugðist innrita farangurinn var honum sagt, af starfsmanni, að það væri óvíst hvort, hvenær og hvert yrði flogið. 

„Hljótum að komast til London á endanum“

Síðan þá hafa engar frekari fregnir borist. Á göngunum heyrist pískur um mögulegar útfærslur af leiðum sem kæmu til með að skila fólki til London á endanum, ýmist í gegnum Belfast, Dublin eða með viðkomu á Keflavíkurflugvelli.

„Við hljótum að komast til London á endanum, hér eru allir rólegir en einhverjir eru með bókaða miða á tónleika eða annað sem er leiðinlegt að missa af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert