„Búið að vanta bíla í marga mánuði“

Framkvæmdastjóri BSR segir að fleiri leigubíla vanti til að mæta …
Framkvæmdastjóri BSR segir að fleiri leigubíla vanti til að mæta eftirspurn. mbl.is/​Hari

„Mér finnst þetta bara gott mál,“ segir Guðmundur Börkur Thorarensen, framkvæmdastjóri leigubifreiðastöðvarinnar BSR, um áform Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem ætla að bjóða miðbæjargestum upp á skutl í kvöld.

Skutlið verður í boði til klukkan eitt í nótt.

„Leigubílsstjórar eru að bíða eftir þessum hundrað leyfum sem áttu að koma út og það hentar ekki þeim kröfum sem við gerum til þjónustunnar að fólk sé að bíða of lengi í miðbænum. Á mestu annatímum er ásættanlegt að fólk þurfi kannski að bíða í hálftíma, en alla hina sólarhringa vikunnar á fólk ekkert að þurfa að bíða neitt lengi eftir leigubíl, það á bara að fá góða þjónustu.

En við viljum hafa jafnvægi í þessu þannig að það sé góð þjónusta fyrir viðskiptavininn og nóg að gera fyrir bílstjórana af því að á meðan þeir eru ekki í ferð eru þeir launalausir.“

Biðin óásættanleg

Guðmundur segir að framlag SUS muni ekki draga úr eftirspurn eftir leigubílum í kvöld.

„Það vantar bíla og búið að vanta bíla í marga mánuði. Hvort sem það eru ferðamenn snemma á morgnana eða fólk sem er að skemmta sér um helgar, það er kannski í partýi og svo þarf það að bíða í tvo klukkutíma, það er bara óásættanlegt.

Álagið sem er á símaafgreiðslu leigubílastöðvanna er líka óásættanlegt vegna þess að við bíðum eftir að hið opinbera fjölgi leyfum í samræmi við eftirspurn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert