Sér allt í nýju ljósi eftir baráttuna við krabbann

Barátta Sigríðar Soffíu Níelsdóttur, danshöfundar og listakonu, við brjóstakrabbamein fékk hana til að sjá lífið í nýju ljósi. „Ég finn fyrir því að það er skeiðklukka í gangi og mig langar að gera svo ótrúlega margt skemmtilegt,“ segir Sigríður Soffía. „Ég er svo meðvituð um það núna að tíminn er ekki sjálfsagður og maður verður að nýta hann ótrúlega vel.“

Hún er viðmælandi í nýjasta þætti Dagmála, frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins sem er aðgengilegur áskrifendum í fullri lengd. Brot úr þættinum birtist hér að ofan en hér geta áskrifendur nálgast hann í fullri lengd.

Sigríður Soffía sat ekki auðum höndum í veikindunum og hannaði bæði líkjör og ilmvatn úr blómum sem ræktuð eru á Íslandi og hafa verið flugeldahönnuðum innblástur. Verkefnið heitir Eldblóm og var kynnt á Hönnunarmars í maí síðastliðnum. Ilmvatnið er uppselt sem stendur en líkjörinn mun fást í ÁTVR í haust, þegar blómin hafa verið ræktuð og líkjörinn verið bruggaður. Hann er ætlaður er til notkunar í „fyrsta íslenska spritzinn“, að sögn Sigríðar Soffíu.

„Eldblómafestivalið var svolítil svona uppskeruhátíð þar sem ég var að einblína á allt sem er skemmtilegt: Hlæja, vera með vinum, drekka góð vín, borða góðan mat,“ segir Sigríður Soffía.

Líkjörinn Eldblóm kemur í ÁTVR í haust. Hér heldur Sigríður …
Líkjörinn Eldblóm kemur í ÁTVR í haust. Hér heldur Sigríður Soffía á vörunni. Ljósmynd/Lilja Birgis

Mitt mál er að gera það sem ég elska

Hún greindist með brjóstakrabbamein fyrir um tveimur árum en er nú laus við meinið og er í bataferli.

„Ég þurfti að leggja frá mér allt og skella mér í heilaga þrenningu: Lyfjameðferð, geisla og aðgerð,“ segir Sigríður Soffía sem tekur nú af væntumþykju utan um þá eiginleika í fari sínu sem hún áður leit á sem neikvæða.

„Mér er bara alveg sama ef einhverjum finnst ekki spennandi eða skemmtilegt það sem ég er að gera. Það er bara ekki mitt mál. Mitt mál er að gera það sem ég elska: hlúa að fjölskyldunni, reyna að vera góð manneskja, reyna að gefa af mér til samfélagsins eins mikið og ég get.“

Hátt hlutfall af samtímadansi í drykknum

Hér geta lesendur fræðst um Eldblóm en í haust mun fyrirtækið bjóða upp á svokallaða danspörun þar sem fólki er kennt að dansa með vínglas í hönd. Sigríður Soffía segir „hátt hlutfall af samtímadansi“ í líkjörnum. 

„Vegna þess að þetta er gert úr kóreógröfuðum blómum þannig að við viljum meina að það sé öruggt að þú munir finna fyrir frumlegum danshreyfingum brjótast út á þriðja glasi,“ segir Sigríður Soffía.

Viðtalið við Sigríði Soffíu í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert