Mæta seinna í skólann í von um bættan svefn

Nemendur á unglingastigi í Vogaskóla munu mæta seinna í skólann …
Nemendur á unglingastigi í Vogaskóla munu mæta seinna í skólann á morgnana. mbl.is/Sigurður Bogi

Nemendur á unglingastigi í Vogaskóla munu í haust mæta seinna í skólann á morgnana í von um bættan svefn. Kennsla í 8. til 10. bekk hefur undanfarin ár hafist klukkan 8:30 en mun nú hefjast klukkan 9:10.

Um er að ræða tilraunaverkefni þar sem áhrif seinkun skólabyrjunar á svefn, líðan og nám nemenda verða skoðuð, að því er segir í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

„Okkur fannst áhugavert að kanna hvort þetta gæti orðið okkar unglingum til hagsbóta. Þetta er náttúrulega bara tilraunaverkefni til eins árs og það er alltaf hægt að snúa til baka ef svo ber undir. En það er líka þannig að ef aldrei er farið af stað með rannsóknir þá öðlumst við ekki nýja þekkingu,“ er haft eftir Snædísi Valsdóttur skólastjóra í tilkynninguni.

Rannsóknir sýna að 50% nemenda í 10. bekk og 70% framhaldsskólanema fá ekki nægan nætursvefn, það er sjö klukkustundir eða minna. Börn og unglingar sem sofa of lítið eiga erfiðara með einbeitingu, glíma frekar við minnistruflanir, depurð og kvíða.

mbl.is