Bilun Advania skerti þjónustu heilsugæslunnar

Mikill hægagangur hefur verið í starfsemi heilsugæslunnar í dag vegna …
Mikill hægagangur hefur verið í starfsemi heilsugæslunnar í dag vegna bilunar hjá Advania. AFP

Bilun í tölvukerfi Advania í dag hafði mikil áhrif á starfsemi heilsugæslunnar og hefur m.a. gengið erfiðlega að gefa út lyfseðla og senda tilvísanir og beiðnir milli stofnana.

Að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hafa endurteknar bilanir verið að koma upp í kerfinu Hekla sem sér um samskipti milli ólíkra stofnana.

Lyfseðlar og önnur samskipti í kerfinu hafa því hlaðist upp og hefur mikill hægagangur verið í dag. Þetta á þó að vera komið í lag núna og ættu lyfseðlar sem ekki hafa komið í gegn að detta inn. „Þetta er farið að ganga.“

Ragnheiður Ósk segir ástandið hafa verið bagalegt í dag og að öll starfsemin hafi hálf lamast. 

Þeir sem ekki náðu að óska eftir lyfjaendurnýjun vegna bilunar í kerfinu í dag, og þurfa nauðsynlega á lyfjunum að halda yfir helgina, geta leitað á Læknavaktina, bendir Ragnheiður Ósk á. 

Hún segir sérfræðinga nú vera að fylgjast með kerfinu og að allt fari klakklaust af stað aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert