„Galið“ að borga fyrir að spila fyrir landið sitt

U-16 ára landslið stúlkna í körfubolta á EM árið 2018.
U-16 ára landslið stúlkna í körfubolta á EM árið 2018.

Börn og ungmenni sem keppa fyrir hönd Íslands á alþjóðavettvangi þurfa sjálf að standa straum af kostnaði ferða sinna að miklu leyti og er það stjórnvöldum til háborinnar skammar, að mati Hilmars Júlíussonar, formanns körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar. 

Hilmar á ekki sjálfur barn í yngri landsliðum um þessar mundir, en sonur hans spilaði fyrir öll yngri landsliðin á sínum tíma. Landsliðsverkefni yngri landsliða hafa verið sambærileg um margra ára skeið, en fyrst er haldið á Norðurlandamót og svo á Evrópumeistaramót. 

Mér skilst að reikningurinn fyrir Norðurlandamótið sé hátt í 250.000 kr. Væntanlega er upphæðin svipuð ef ekki hærri fyrir Evrópukeppnina. Þannig að það kostar ca. 500.000 kr á ári í allt að 5 ár að eiga barn sem valið er að leika fyrir Íslands hönd!! Þess eru ófá dæmi að foreldrar séu með 2 börn á sama tíma í einhverjum landsliðum og þarf ekki stærðfræðing til að finna út hvað það kostar, “ skrifar Hilmar í færslu á facebook síðu sinni. 

Takmörkuð vinnugeta, engar fjáraflanir og óvissa

Í samtali við mbl.is bendir Hilmar á að krakkar sem valdir eru í unglingalandslið eigi erfitt með að fá sumarvinnu, enda bíði þeirra tvær utanlandsferðir og strangar æfingar milli þeirra. Þau séu því að fórna miklu fyrir verkefnin. 

Þá segir hann KKÍ ekki leiða neina fjáröflun, svo fjármögnun ferðanna sé undir leikmönnum og fjölskyldum þeirra komið. Þá bendir hann á að þó leikmaður sé valinn í fimmtán manna æfingahóp, viti hann ekki hvort hann verði í tólf manna liði sem keppir á mótinu, fyrr en örfáum dögum áður en greiða þarf gjaldið og þá sé full seint í rassinn gripið að ráðast í fjáröflun. 

„Það vill enginn segja við barnið sitt að það geti ekki farið til Finnlands á Evrópumót vegna þess að það kosti svo mikið.“

Með því að láta leikmenn sjálfa bera kostnað af ferðum sínum er gengið út frá því að þeir eigi gott bakland sem mun sjá til þess að ferðin verði greidd. Það sé til þess fallið að útiloka ákveðinn hóp iðkenda frá því að leika fyrir Íslands hönd og ná sama árangri í íþróttinni, en landsliðsverkefni geta einmitt verið mikilvægur gluggi fyrir unga leikmenn að komast á blað fyrir félags- eða háskólalið erlendis. 

KSÍ í sérflokki

Þá telur hann þetta einnig geta bitnað á íþróttinni í samanburði við, til að mynda, knattspyrnu, þar sem allt er greitt af Knattspyrnusambandi Íslands. Hann viðurkennir að KSÍ sé í sérflokki þegar kemur að fjárhagsstöðu, enda fái sambandið styrki frá alþjóðasamböndum sem berist ekki til annarra sérsambanda. Það sé því ekki samanburðarhæft. 

„Annars er þetta sami pakki í handboltanum, sundi og fleiri íþróttagreinum. Ég trúi því að ef þú ert að keppa fyrir hönd þjóðarinnar, eigi það að vera þér að kostnaðarlausu. Ríkið ætti því að borga þessar ferðir, hvort sem það er með hærri styrkjum til sérsambandanna eða einfaldlega með því að greiða ferðakostnaðinn.“

Íþróttafólk beri skertan hlut frá borði

Hilmari þykir íþróttafólk bera skertan hlut frá borði. „Íþróttahreyfingin hefur ekki nógu sterkt lobbý í dag. Við þurfum ekki annað en að skoða fjárveitingar til menningar- og listaverkefna. Hlutfallslega hefur íþróttahreyfingin verið að fá minna og minna með ári hverju.“

Hilmar merkti Íþróttasamband Íslands, Ásmund Einar Daðason barna- og skólamálaráðherra, Helgu Völu Grímsdóttur þingkonu Samfylkingarinnar og Guðrúnu Hafsteinsdóttur þingkonu Sjálfstæðisflokksins, í færsluna og skoraði á þau að beita sér fyrir málefninu. 

Helga Vala og Guðrún eiga báðar börn sem spilað hafa með yngri landsliðum í körfubolta. Þær svöruðu kallinu í athugasemdum undir færslunni og tóku undir með Hilmari. 

Galið að borga fyrir að spila fyrir landið sitt

Í Garðabæ eru veittir afreksstyrkir og Stjarnan greiðir einnig út styrki til þeirra sem komast í landslið, til þess að létta undir með foreldrum. Hilmar segir þessa styrki þó vera dropa í hafi þegar litið er til kostnaðarins í heild. Þá hefur KKÍ einnig bent á það í tölvupóstum til foreldra að ef „illa standi á“ geti foreldrar haft samband við KKÍ. 

Hilmari þykir engu að síður galið að láta börn borga fyrir að spila fyrir hönd landsins síns. „Ég er ekki viss um að þetta sé svona í nokkru öðru landi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert