Mikið hefur verið hringt í þjónustuver Veitna í morgun eftir fregnir um að raforkufyrirtæki ætla að loka fyrir rafmagnið hjá þeim sem hafa ekki valið sér nýjan raforkusala í tæka tíð.
Það gerist ekki lengur sjálfkrafa að fólk fái raforkusala við íbúðakaup heldur þarf það að velja sér fyrirtæki. Þeir sem eru að koma nýir inn á íbúðamarkaðinn eða hafa tekið sér 90 daga hlé frá honum hafa núna 30 daga til að velja sér raforkusala.
Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Veitna, segir fyrirtækið vel undirbúið varðandi samskipti við viðskiptavinina sem Veitur dreifa rafmagni til og nefnir að þetta sé ekki stór hópur á landsvísu sem málið varðar. Að megninu til séu þetta þeir eru að koma nýir inn á íbúðamarkaðinn, t.d. fyrstu kaupendur íbúða og þeir sem eru að koma erlendis frá.
„Við verðum í sambandi við fólk áður en til lokunar kemur og bendum þeim á að það sé auðvelt og taki ekki langan tíma að velja sér raforkusala. Það geti leyst málin áður en til lokunar kemur með tilheyrandi óþægindum og kostnaði,“ segir Ólöf Snæhólm, upplýsingafulltrúi Veitna.
Hún hvetur fólk til að setja inn tengiliðaupplýsingar sínar á mínar síður á Veitur.is, því þannig sé auðveldara að ná í það.
Hægt er að sjá frekari upplýsingar um raforkukaup bæði á samorka.is og orkustofnun.is, eða hjá raforkufyrirtækjunum.