„Sérlundaðir furðufuglar“ ÍE hrepptu annað sætið

Lið Íslenskrar erfðagreiningar hreppti annað sætið.
Lið Íslenskrar erfðagreiningar hreppti annað sætið. Ljósmynd/decode.xy

Hjólreiðalið Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) lenti í öðru sæti amerísku hjólreiðakeppninnar Race Across America á föstudag. Liðið, sem samanstóð af átta manns, hjólaði kílómetrana 4.888 á sex dögum, fjórum klukkustundum og sex mínútum. 

Eins og nafn keppninnar gefur til kynna felur hún í sér hjólreiðar þvert yfir Ameríku. 

„Þessi keppni er lífsreynsla sem mun fylgja okkur til æviloka og nú sitjum við hér í Annapolis, Maryland og vitum eiginlega ekki hvað við eigum af okkur að gera,“ segir í Facebook-færslu liðsins sem skrifuð var degi eftir keppnina, á laugardag.

„Efst í huga okkar er þó þakklæti til allra sem gerðu okkur kleift að láta þennan draum rætast.“

Þakka liðsmenn eiginkonum sínum og fjölskyldum sérstaklega fyrir alla aðstoðina.

„Án ykkar væri ekkert þessu líkt mögulegt og við erum að eilífu þakklátir.“

Stærra og flóknara verkefni en nokkur getur ímyndað sér

Þá þakka þeir einnig aðstoðarmönnum sínum og vinum; sex bílstjórum og einum kvikmyndatökumanni. 

„Sem tókst á einhvern undraverðan hátt að koma 8 sérlunduðum furðufuglum þvert yfir heila heimsálfu á 6 dögum, fæða, klæða, keyra og hvíla. Þetta verkefni er stærra og flóknara en nokkur getur ímyndað sér að óreyndu,“ segir í færslunni.

„Síðan er það auðvitað sameiginlegur vinnustaður okkar og annað heimili - Íslensk erfðagreining. Kári og allir vinnufélagar okkar þar sem einnig hafa staðið með okkur í gegnum súrt og sætt, hvatt okkur til dáða og stutt okkur í að gera þetta ævintýri að veruleika.“

mbl.is