Þremur flugferðum aflýst vegna viðhalds

Þremur flugferðum félagsins var aflýst í dag, samkvæmt upplýsingum á …
Þremur flugferðum félagsins var aflýst í dag, samkvæmt upplýsingum á vef Isavia. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Flugferðum Icelandair frá París, Stokkhólmi og Nuuk til Íslands var aflýst í dag vegna viðhalds véla. Þetta staðfestir Ásdís Ýr Pétursdóttir upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is.

Að sögn Ásdísar komust allir farþegar frá Stokkhólmi og París til Íslands þrátt fyrir þetta. Ekki er þó sömu sögu að segja af fluginu frá Nuuk.

Bendir hún á að flugvélin frá Nuuk sé innanlandsvél. Eins og greint hefur verið frá hafa verið talsverðar raskanir á innanlandsflugi félagsins vegna tæknilegra vandamála í tveimur vélum í innanlandsflota Icelandair.

Mikil tíðni á vinsælustu staðina

Tekur hún einnig fram að fluginu frá Stokkhólmi hafi strangt til tekið ekki verið aflýst eins og stendur inni á vef Isavia.

„Stokkhólmsflugið er í raun seinkun, því var seinkað um nokkra tíma en þar sem það fór fram yfir miðnætti er það fellt niður og sett upp sem nýtt flug.“

Segir Ásdís að farþegar muni því komast á leiðarenda en bara aðeins seinna en var upprunalega gert ráð fyrir.

Varðandi flugið frá París segir Ásdís að fluginu hafi verið aflýst vegna viðhalds á flugvélinni en að allir farþegar hafi komist til landsins í öðru flugi sem fór seinna í dag. 

„Við erum með mikla tíðni á okkar vinsælustu staði og fjölbreytta brottfarartíma innan dagsins og það gerir okkur kleift að koma farþegum yfir á önnur flug þegar það þarf að fella niður flugferð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert