Skotárásir „risastórt“ samfélagslegt mál

Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir að ekki sé hægt að útiloka …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson segir að ekki sé hægt að útiloka að sambærilegar skotárásir eins og hafa verið gerðar í Evrópu geti ekki gerst á Íslandi. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

„Þetta er risastórt samfélagslegt mál sem er mikilvægt að við reynum að sporna gegn með einhverjum hætti,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra í samtali við mbl.is um skotárásir í Evrópu að undanförnu.

„Það er alveg hræðilegt að sjá hvað er að gerast á Norðurlöndunum eins og við erum að sjá í Noregi í árásum á hinsegin samfélagið og síðan það sem er að gerast í Danmörku núna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við reynum í sameiningu sama hvar við erum í heiminum að reyna að fyrirbyggja svona ef það er mögulega hægt,“ segir Guðmundur Ingi.

„Þar kemur til bæði stuðningur við fólk og líka að ná betur utan um hópa eða fólk sem sýnir af sér hegðun sem er með þessum hætti. Auðvitað er þetta oft falið þannig það er ekki einfalt að takast á við þetta.“

Getum ekki útilokað svona árásir á Íslandi

Geta svona skotárásir ekki alveg eins gerst á Íslandi?

„Við getum alls ekki útilokað það, því miður. Við þurfum líka að horfa til þess með hvaða hætti er almennt hægt að bregðast við þessu. Þar held ég að sé mjög mikilvægt að við tökumst á við þær áskoranir sem fylgja hatursorðræðu og nú hefur forsætisráðherra skipað starfshóp sem á að skoðar þau mál,“ segir Guðmundur Ingi.

Hann talar fyrir aukinni fræðslu um fjölbreytileika því í sumum tilfellum er verið að ráðast á jaðarhópa eða minnihlutahópa.

„Síðan að við nálgumst þetta með eins fordómalausum hætti og mögulegt er, af því að í sumum tilfellum er um að ræða einstaklinga sem framkvæma svona eru sjálfir að koma úr jaðarhópum. Alls ekkert í öllum tilfellum en það kemur líka fyrir,“ segir Guðmundur Ingi.

mbl.is

Bloggað um fréttina