Háannatíminn að byrja í Skaftafelli

Meirihluti gesta í Skaftafelli eru erlendir ferðamenn.
Meirihluti gesta í Skaftafelli eru erlendir ferðamenn. Ljósmynd/Brynjar Gauti

Blíðviðri er nú í Skaftafelli í Vatnajökulsþjóðgarði og finnur Hrafnhildur Ævarsdóttir, þjóðgarðsvörður í Skaftafelli, á sér að háannatíminn sé að hefjast. 

„Það er búin að vera mjög góð aðsókn. Gestum hefur fjölgað hratt og það hefur gengið vel, síðan er blíðviðri núna svo margir eru á tjaldsvæðinu,“ segir hún.

Í Skaftafelli er boðið upp á tvær fræðslugöngur á dag sem eru vinsælar hjá erlendum ferðamönnum en þá er einnig viðvera við fræðslusvæðið fyrir utan gestastofuna á morgnana.

Stuttar og auðveldar gönguleiðir liggja að Svartafossi og Skaftafellsjökli en þeir sem vilja ganga lengra geta farið í Morsárdal, á Skaftafellsheiði og á Kristínartinda. 

Hrafnhildur Ævarsdóttir.
Hrafnhildur Ævarsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Allt frá skrámum upp í alvarleg atvik

Ferðamenn sækja í göngurnar og spurð hvort slys hafi orðið segir Hrafnhildur: 

„Já, það hefur komið upp fjöldi atvika, misalvarleg. Eðli málsins samkvæmt, það er fullt af ferðamönnum hérna. Allt frá smávægilegum skrámum upp í alvarleg atvik.“

Björgunarsveitin Kári er þó þjóðgarðinum til halds og trausts í suðri, auk Kyndils í austri. Þá er heilsugæslan á Suðurlandi heldur ekki langt undan. 

Skaftafellsþjóðgarður verður með ýmislegt í gangi yfir verslunarmannahelgina: 

„Við verðum með gott íslenskt prógramm yfir verslunarmannahelgina, landvarðaleikar, barnastundir og annað. Við vonumst til þess að fá gott veður og fá Íslendinga.“

Gestastofan í Skaftafelli.
Gestastofan í Skaftafelli. Ljósmynd/Skaftafellsþjóðgarður
mbl.is