„Við fáum lítið að kenna á þessari hitabylgju“

Meðalhiti var undir meðallagi í júní á meðan hitabylgja hefur …
Meðalhiti var undir meðallagi í júní á meðan hitabylgja hefur verið í vestanverðri Evrópu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Í júní var frekar svalt alla vega á suðvesturlandi. Meðalhitinn í Reykjavík var rétt undir meðallagi, en það var aðeins hlýrra á Akureyri í júní,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

„Við erum bara í einhverri lægðarbraut hérna og svalt loft norður af landinu. Við fáum lítið að kenna á þessari hitabylgju í Evrópu næstu daga virðist vera,“ segir Þorsteinn.

„Það koma lægðagusur næstu viku. Nokkuð kröpp lægð kemur upp að landinu í kvöld og það verður svolítið hvasst víða á landinu á morgun. Við erum með gula viðvörun fyrir suðausturland.

Strax á föstudaginn kemur næsta lægð og mér sýnist vera önnur lægð sem kemur á miðvikudag eða fimmtudag í næstu viku. Við erum í svölum straumi hérna á meðan þetta heita loft er yfir Evrópu,“ segir Þorsteinn.

Hiti nálægt 20 stigum fyrir austan

„Yfir vesturhluta landsins verður hiti rétt yfir 10 gráður á fimmtudag og föstudag. Aðeins hlýrra verður um helgina en það rignir eiginlega alla dagana,“ segir Þorsteinn.

„Á Austfjörðum og Austurlandi verður sólskin og hitinn fer nálægt tuttugu stigum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert