„Við munum aldrei hætta þessari baráttu“

Kröfufundur var haldinn fyrir utan skrifstofur ÍSÍ og SSÍ í …
Kröfufundur var haldinn fyrir utan skrifstofur ÍSÍ og SSÍ í dag. mbl.is/Arnþór

Kröfufundur var haldinn fyrir utan skrifstofur Íþróttasambands Íslands og Sundsambands Íslands í dag þar sem um fimmtíu komu saman til að mótmæla reglum sem banna trans konum að að synda í kvennaflokki.

Viima Lampinen, formaður Trans Íslands, segir í samtali við mbl.is að fundurinn hafi gengið vel.

„Á sama tíma bjóst ég við að sjá fulltrúa frá Íþróttasambandinu og Sundsambandinu en eftir því sem ég best veit var enginn á þeirra vegum á fundinum,“ segir hán. Stjórn Trans Íslands hafi hvorki fengið viðbrögð frá ÍSÍ né SSÍ.

„Ég bjóst við því að SSÍ myndi senda frá sér yfirlýsingu, en ég veit ekki til þess að þau hafi gert það enn.“

Um fimmtíu sóttu fundinn.
Um fimmtíu sóttu fundinn. mbl.is/Arnþór

Alþjóðasundsambandið FINA samþykkti nýlega tillögu um reglugerð sem bannar trans konum sem hafa gengið í gegnum karlkyns kynþroskaskeið að keppa í kvennaflokki. SSÍ kaus með tillögunni.

Líkamleg geta ekki það eina sem skipti máli

Segir Viima að ákvörðun um að útiloka trans konur á þennan hátt sendi sterk skilaboð um annað hvort hatur eða fávísi. Líkamlegir burðir séu ekki það eina sem skipti máli í íþróttaheiminum.

„Ef það væri þannig myndi ég hiklaust skrá mig í íþróttina þar sem ég væri líkamlega sterkast og fólk gæti bara rétt mér gullið, en þannig virka ekki íþróttir og ég trúi ekki að íslenskt íþróttasamband geti sagt að aðeins sé horft til líkamlegrar getu,“ segir hán.

Við í Trans Ísland erum alltaf tilbúin til að eiga samtal og hjálpa, það er hlutverk okkar í samfélaginu og við þurfum að eiga erfiðar samræður. Við munum aldrei hætta þessari baráttu, þetta verður á okkar dagskrá þangað til að sambandið breytir atkvæði sínu, við ætlum ekki að bakka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina