Geðhjúkrunarfræðingur dauðans

Þórarinn brosir sínu blíðasta ásamt dóttur þeirra Höllu, Sigríði Jónínu …
Þórarinn brosir sínu blíðasta ásamt dóttur þeirra Höllu, Sigríði Jónínu Þórarinsdóttur, litlu kríli sem fagnar þriggja ára afmæli sínu í ágúst. Ljósmynd/Halla Björk Kristjánsdóttir

„Ég hef alltaf verið mikill áhugamaður um tónlist og þungarokk,“ segir Þórarinn Freysson, eitt sinn bassaleikari í hinni góðkunnu íslensku dauðarokksveit In Memoriam en með hinum þunga nið tímans hefur Þórarinn orðið geðhjúkrunarfræðingur í Lundúnum þar sem hann býr ásamt eiginkonu sinni, Höllu Björk Kristjánsdóttur. Í þessu viðtali verður eftir föngum reynt að brjóta þessi hamskipti til mergjar.

„Ég spilaði á gítar á þeim tíma en frændi minn hann Fróði [Finnsson heitinn] sem spilaði á gítar í Sororicide sagði við mig „Heyrðu, það er hljómsveit hérna sem heitir Jó Mama og vantar bassaleikara og þú átt bassa. Ertu ekki til í að skipta yfir bara?“ og ég sagði bara jú jú, eins og ég segi alltaf við öllum tækifærum sem koma,“ segir Þórarinn.

Gamlir dagar sem seint gleymast og In Memoriam líklega réttnefni …
Gamlir dagar sem seint gleymast og In Memoriam líklega réttnefni á þessa fornfrægu dauðarokksveit. Mynd frá 2016. Drengirnir steyta hornin. Frá vinstri: Árni Jónsson, Kristján „Stjúni“ Ásvaldsson, Þórarinn Freysson og Franz Gunnarsson. Gamalgrónir Garðbæingar minnast Stjúna sem trommuleikara hljómsveitarinnar Bootlegs sem ekki var síðra vörumerki hans en rauð Mazda 323 sem hann ók vel síðhærður um bæinn á síðustu öld. Hárið og Mazdan eru nú sokkin í fortíðina og eins og segir í Eglu um ambáttina Brák og bjargið „...ok kom hvártki upp síðan.“ Ljósmynd/Sigríður Ella Frímannsdóttir

„Svo vorum við að hita upp í einhverri félagsmiðstöð fyrir In Memoriam, sem hétu Mortuary á þeim tíma, og þeir buðu mér að koma að spila með sér og þannig byrjaði ég að spila með In Memoriam,“ segir þessi tæplega fimmtugi Reykvíkingur sem lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands, kannski síðustu menntastofnun landsins sem nokkur kynni að tengja við dauðarokk.

Frábær tími með Bone China

Þórarinn rifjar upp heillandi tíma Músíktilrauna upp úr 1990 þegar hreinræktuð dauðarokksbylgja tröllreið þessari skemmtilegu tónlistarkeppni og blaðamaður fellir tár í laumi yfir ljúfsárum æskuminningum málmkenndrar tilveru. „Við lentum í þriðja sæti og svo í öðru sæti á eftir Kolrössu krókríðandi vorið 1992. Þetta voru aldeilis góðir tímar,“ segir Þórarinn í Messenger-samtali milli Noregs og Englands og því til jarteikna skellur á nokkurra sekúndna þögn í spjallinu.

Á nýlendutímanum var sagt að breska heimsveldið væri komið svo …
Á nýlendutímanum var sagt að breska heimsveldið væri komið svo víða að sólin settist aldrei innan vébanda þess og ekki sest hún í bráð hjá þessari fjölskyldu. Frá vinstri: Þórarinn, Elijah Benedikt Burton, Kristófer Ísak Hölluson og Halla Björk. Ljósmynd/Halla Björk Kristjánsdóttir

„Eftir In Memoriam fór ég í hljómsveit sem hét Bone China og var úr Garðabænum,“ heldur Þórarinn frásögn sinni áfram. „Þetta var á þeim tíma þegar grunge-ið var að taka við af þungarokkinu og Jet Black Joe var að koma fram á sjónarsviðið og ég var eitthvað að spila með Gunnari Bjarna og Palla Rósinkranz, þetta var alveg frábær tími,“ rifjar Þórarinn upp.

Í gegnum Bone China kynntist hann Guðmundi Gunnlaugssyni trommuleikara og þaðan lá leið hans inn í hljómsveitina Sixties sem margir Íslendingar sem komnir eru af því allra léttasta minnast af sviði Gauks á Stöng árin 1994 og '95 og þar um bil. „Áramótin '94-'95 vorum við veðurtepptir á Ísafirði í viku og þá hringdi í okkur Rafn Jónsson sem var trommari í Grafík á sínum tíma og sagði „heyrið þið strákar, ég væri til í að gefa út plötu með ykkur“, sem okkur fannst frekar fyndið en við sögðum bara „ókei jú jú, gerum það bara“, og það varð þá fyrsta Sixties-platan sem varð vinsæl sumarið '95 og það varð í raun til þess að ég varð atvinnutónlistarmaður og þetta er svona tónlistarferillinn minn í stuttu máli,“ segir Þórarinn og hlær við raust frá breska heimsveldinu.

Geimverur að ráðast á jörðina

Eftir allt þetta ævintýri á Íslandi stóð Þórarinn á krossgötum og var hreint ekki viss um hvað hann ætti að taka sér fyrir hendur. „Ég vissi að ég vildi búa erlendis einhvern tíma og ákvað að fara í hljóðritunarnám í skóla í Manchester, skellti mér út árið 2000 og kláraði það nám, sem var tvö ár, mjög skemmtilegt. Ég ætlaði reyndar ekkert að vera svona lengi, þetta var árið 2000, fyrir 22 árum, og ég er enn þá á Englandi,“ segir Þórarinn sem tók að starfa við umönnun og þótti vistin góð.

In Memoriam í sínum rétta ham. Þórarinn, Árni og aftast …
In Memoriam í sínum rétta ham. Þórarinn, Árni og aftast Vigfús Þór Rafnsson gítarleikari. „Ég veit ekkert hver tók þessa mynd, hvar hún var tekin eða hvenær,“ játar Þórarinn fúslega. Ljósmynd/Aðsend

„Þannig að ég ákvað að skella mér í geðhjúkrunarfræði,“ segir bassaleikari dauðarokksveitarinnar In Memoriam af fullri einlægni. Þórarni bauðst að komast í námið á kostnað breska ríkisins og vissulega tók hann því. „Og þá var ég sem sagt að vinna á spítala fyrir mjög veika afbrotamenn og var þar í sjö ár, þetta var í rauninni bara fangelsi. Eftir það fór ég að vinna á geðdvalardeild í tvö ár en núna vinn ég á bráðadeild í London sem er nálægt Buckingham-höllinni þannig að þangað kemur fólkið sem er að reyna að komast í samband við drottninguna til að segja henni að geimverur séu að fara að ráðast á jörðina og líka fólk sem hoppar fram af húsum og stekkur í veg fyrir lestir,“ segir Þórarinn og nær með geðþekkum og afslöppuðum raddblæ sínum að láta þessar athafnir hljóma eins og að smyrja brauðsneið.

„Þessi spítali heitir St. Mary's og svo fór ég í meistaranám í taugavísindum, eða neuroscience, og það sem kom mér í raun á bragðið með það nám var þegar ég las bókina The Man Who Mistook His Wife for a Hat,“ segir Þórarinn á meðan blaðamaður minnist fjölda annarra hvata að framhaldsnámi. Sumra kannski vitlausari en að rugla spúsu sinni við flík, hver veit?

Jafnmikið kaos og dauðarokk

Þórarinn kveðst alla tíð hafa haft áhuga á mannsheilanum og taugakerfinu, „svo ég skellti mér í þetta nám og kláraði það fyrir ári, ég blómstra svo seint á akademíska sviðinu,“ segir bassaleikarinn geðþekki hlæjandi en Þórarinn verður fimmtugur á næsta ári. Hann sleppur þó ekki við að segja meira af þessu forvitnilega starfi.

Þórarinn við störf á sjúkrahúsi heilagrar Maríu og veitir varla …
Þórarinn við störf á sjúkrahúsi heilagrar Maríu og veitir varla af heilagleika þar um slóðir. Í starfi sínu fæst hann við fólk sem hefur reynt að fyrirfara sér með því að stökkva fyrir lestir eða fram af þökum, jafnvel tilkynna Bretadrottningu um yfirvofandi innrás geimvera. Ljósmynd/Aðsend

„Það skemmtilegasta við þessa vinnu er að maður veit aldrei hvernig dagurinn verður, þetta er í raun alveg jafnmikið kaos og að vera í dauðarokksveit,“ segir Þórarinn og hlær. „Ég mæti kannski í vinnuna og þarf þá að fást við einhvern sem er búinn að taka mörg eiturlyf og kominn í geðrof af þeim sökum eða einhvern sem hefur verið að fara gegnum erfitt tímabil í lífi sínu og ákveður að þetta sé ekki þess virði og stekkur fram af þaki eða fyrir lest, fólk kemur inn á mína deild af mörgum ástæðum,“ útskýrir geðhjúkrunarfræðingurinn.

Tekur hann þó sérstaklega fram að hann veiti ekki sálfræðimeðferð. „Ég er bara að reyna að komast að því hvað er í gangi, stundum þarf maður að neyða fólk inn á geðspítala, mitt starf snýst í raun um að koma fólki í réttan farveg, hvort sem það er að koma því til sálfræðings eða vista það á geðdeild,“ segir Þórarinn og játar að það sé ekki beinlínis eins og að drekka vatn að byrja að tala við fólk, kynnast því og átta sig á vanda hvers og eins.

Kallaður Totti Fretsson

Eins og framangreint feli ekki í sér nægar áskoranir vinnur Þórarinn vaktavinnu og er reyndar einmitt nývaknaður eftir næturvakt þegar þetta viðtal er tekið. Hann gleðst þó yfir starfi sínu. „Þetta er rosalega gefandi og krefjandi, ég hef aldrei getað verið í vinnu þar sem ég sit kyrr lengi,“ segir dauðarokkarinn.

Hin fornfræga sveit Sixties árið 1996 en þeim piltum leiddist …
Hin fornfræga sveit Sixties árið 1996 en þeim piltum leiddist ekki að halda uppi stuðinu á Gauki á Stöng um það leyti. Lyktaði jafnvel einu kvöldinu þar í ágúst 1995 með slíkjum stórmerkjum að Rúnar söngvari hlaut viðurnefnið Rúnar puttalausi. Frá vinstri: Rúnar Örn Friðriksson söngvari, Guðmundur Gunnlaugsson trommari, Andrés Þór Gunnlaugsson gítarleikari og Þórarinn bassaleikari. Ljósmynd/Spessi (þó óljóst)

Blaðamaður stenst ekki freistinguna að spyrja hvernig Bretum gangi að bera nafnið Þórarinn fram og kallar fram hlátur hjá Þórarni. „Ja, ég er alltaf kallaður „Toti“ en ég hef líka verið kallaður Tony og alls konar. Á bréfum sem koma með póstinum eru ýmsar útgáfur af nafninu mínu, ein besta útgáfan sem ég man eftir var þegar ég var kallaður Totti Fretson,“ segir Þórarinn og hlær dátt.

„Fólk verður oft vandræðalegt þegar það reynir að bera fram nafnið mitt og ég er eiginlega bara kominn með staðlað svar: „I've been called worse,“ segir Þórarinn og skellir upp úr.

„Ég var svo feiminn“

Hann er inntur eftir frekari upplýsingum um Höllu konu sína. „Við kynntumst þegar við í In Memoriam fórum í fyrsta tónleikaferðalagið okkar til Akureyrar,“ segir Þórarinn og nær að láta Akureyrarförina hljóma eins og tónleikaferðalag um allan heim. „Svo kemur hún bara þarna og er í kringum okkur í hljómsveitinni, mér fannst hún alltaf rosa sæt en þorði nú ekki að gera neitt í því þá, ég var svo feiminn,“ játar Þórarinn og glottið heyrist nánast gegnum Messenger-spjall frá breska heimsveldinu.

Elijah, Halla og Kristófer, stálmyndarleg fjölskylda Þórarins. Þau Halla kynntust …
Elijah, Halla og Kristófer, stálmyndarleg fjölskylda Þórarins. Þau Halla kynntust í tónleikaferð In Memoriam til Akureyrar og játar Þórarinn fúslega að hann hafi rennt hýru auga til Höllu frá fyrstu byrjun en verið of feiminn til að láta til skarar skríða. Nú eru þau hjón og In Memoriam spilaði að sjálfsögðu í brúðkaupinu. Ljósmynd/Aðsend

„Við giftum okkur svo 2016 og þá komum við í In Memoriam einmitt saman og spiluðum í brúðkaupinu, In Memoriam hefur alltaf verið svona rauði þráðurinn gegnum allt í mínum tónlistarferli,“ segir Þórarinn og lítur í huga sér aftur til löngu horfins tíma. Halla er í grunninn grafískur hönnuður en lagði í Manchester stund á meistaranám í tölvunarfræði og gervigreind og starfar innan þess geira. Allt í allt eiga þau Þórarinn þrjú börn að meðtöldum stjúpsyni Þórarins.

„Við stefnum á að vera hérna í London og bara koma okkur fyrir hérna,“ segir hann af framtíðaráætlunum. „Við eigum auðvitað fjölskyldu á Íslandi og þykir vænt um Ísland en þar er svolítið kalt og frekar dýrt að kaupa í matinn svo ég held við verðum bara hérna,“ segir Þórarinn og kveðst ánægður með breskan vinnumarkað.

Stoltur faðir með sonum sínum, greinilega á góðri leið með …
Stoltur faðir með sonum sínum, greinilega á góðri leið með að verða lágvaxnasti maður þessa karlleggjar. Ljósmynd/Halla Björk Kristjánsdóttir

„Okkur finnst gaman að ferðast og fórum víða fyrir faraldurinn. Við fórum til dæmis til Króatíu og ókum þaðan til Bosníu og ég skrifaði bók um þá ferð sem heitir Hermaður og kom út á Íslandi á sínum tíma 2014,“ segir Þórarinn sem sannarlega leynir á sér enda altalað að drunur dauðarokksveita og skáldsagnaritun fer ekki saman í lífi allra. En inni á milli leynist greinilega sjaldgæft fólk á borð við geðhjúkrunarfræðinginn, verslunarskólanemann og dauðarokkarann Þórarin Freysson. Vafalítið væri heimurinn fátækari ella.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert