Líkamsárás í heimahúsi

Á tólfta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um líkamsárás í heimahúsi í hverfi 104 í Reykjavík. Einn einstaklingur var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangaklefa. Annar einstaklingur var fluttur á bráðamóttöku til skoðunar.

Laust fyrir klukkan tíu í gærkvöldi var tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi að ganga fyrir bifreiðar í hverfi 105. Hann var handtekinn og vistaður þar til rennur af honum, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Tilkynnt var um eld í gámi í hverfi 221 í Hafnarfirði á tíunda tímanum í gærkvöldi og fór slökkviliðið á vettvang og slökkti eldinn.

Upp úr miðnætti var jafnframt tilkynnt um slagsmál á skemmtistað í hverfi 220 í Hafnarfirði.

Tilkynnt var tvívegis um þjófnað úr verslun í hverfi 109 í Breiðholti, í bæði skiptin á tíunda tímanum í gærkvöldi. Hélt sá grunaði sína leið að lokinni skýrslutöku í báðum tilfellum.

Um klukkan hálftólf var óskað eftir aðstoð í verslun í hverfi 111 í Breiðholti vegna einstaklings sem var að áreita viðskiptavini.

mbl.is