Verðum að búa okkur undir næsta gos

Nú þegar Reykjaneseldar eru hafnir er bráðnauðsynlegt, að mati Ármanns Höskuldssonar eldfjallafræðings, að setja upp tíu til tuttugu ára plan til að tryggja sem stystan viðbragðstíma ef mikilvægir innviðir skemmast.

Hann nefnir Hveragerði, Þorlákshöfn, Grindavík, Voga, Reykjanesbæ  og jafnvel höfuðborgarsvæðið sem allt eru staðir sem geta sætt alvarlegum áföllum komi upp stórt gos.

Eldgosið í Geldingadölum var lítið.
Eldgosið í Geldingadölum var lítið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Næsta hrina geti orðið í vetur

Heitt og kalt vatn getur farið og jafnvel rafmagn. Gerist það um hávetur kemur upp alvarleg staða. Þá er nauðsynlegt að hafa þegar svör við hvernig á að leysa vandamálin sem upp koma.

Ármann telur að næsta hrina Reykjaneselda geti allt eins og orðið í vetur og hann minnir á að Geldingadalagosið var lítið eldgos. Við getum átt von á margfalt stærra gosi sem muni hafa áhrif á lífsgæði og breyta því lífi sem við þekkjum í dag.

Einungis klukkutímar geti verið til stefnu

Margt er hægt að gera til að stytta viðbragðstíma. Færa efni í varnargarða nær svæðinu og klára að hanna lausnir sem viðbrögð við skemmdum á innviðum. Hann segir marga hafa vaknað við gosið í Geldingadölum en við verðum að nýta tímann og halda áfram þeirri vinnu sem sett var af stað.

Þegar næsta gos kemur getur verið að einungis klukkutímar verði til stefnu til að leysa stór vandamál. Þá er ekki skynsamlegt að eiga eftir að hanna lausnirnar.

Ármann Höskuldsson er í Dagmálum í dag og er þátturinn í heild sinni aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins. Hér að ofan má sjá brot úr þættinum.

mbl.is