Enginn dúkur á hinni nýju Hamarshöll

Hamarshöllin var íþróttahús bæjarins.
Hamarshöllin var íþróttahús bæjarins. mbl.is/Helgi Bjarnason

Hin nýja Hamarshöll verður einangrað hús með burðarvirki úr stálgrind eða öðrum föstum efnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hveragerði, en meirihluti bæjarstjórnar hefur samþykkt að fara af stað með hönnun og útboð á nýrri Hamarshöll á grunni þeirrar sem fauk 22. febrúar síðastliðinn.

Sveitarstjórnarfulltrúar í Hveragerði hafa mikið deilt um málið.

Þegar hefur verið skipaður hönnunarhópur til að gera tillögu um hönnun hússins, en hópurinn á að skila tillögu fyrir 15. ágúst þessa árs. Í framhaldinu verði farið í alútboð á hönnun og byggingu nýrrar Hamarshallar.

Upplýsingar frá framleiðanda ófullnægjandi

Í greinargerð með samþykktinni um hina nýju Hamarshöll segir að bærinn vilji horfa til langs tíma við uppbyggingu íþróttamannvirkja í Hveragerði. Stefnt er að því að hin nýja Hamarshöll verði komin upp haustið 2023.

„Upplýsingar sem komið hafa frá Duol, hinum slóvenska framleiðanda á loftbornu íþróttahúsi, hafa verið ófullnægjandi og ekki fengist mikilvægar upplýsingar um gæði dúksins og ástæðu þess að húsið féll þann 22. febrúar sl.

Því er rétt að Hveragerðisbær horfi á aðrar og varanlegri lausnir við uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum. Stefnt er að því að ný Hamarshöll, sem verði einangrað hús með burðarvirki úr stálgrind eða öðrum föstum efnum, verði komin upp haustið 2023,“ segir í greinargerðinni.

Óraunhæfur framkvæmdatími

Á fundi bæjarstjórnar lýstu fulltrúar D-listans, sem er nú í minnihluta, áhyggjum af framkvæmdatímanum.

„Fulltrúar D-listans lýsa yfir áhyggjum sínum yfir því að enn séu ekki hafnar framkvæmdir vegna uppbyggingar Hamarshallar. Ljóst er að ekkert íþróttastarf fari fram í Hamarshöllinni veturinn 2022-2023 og þá er einnig afar ólíklegt að svo verði veturinn 2023-2024.

Að hönnunar- og framkvæmdatími taki eitt ár er algjörlega óraunhæft. Ef byggja á íþróttamannvirki úr límtré eða stálgrind þarf að breyta burði í grunninum ef á annað borð á að nota á sömu staðsetningu og stærð. Þessi ákvörðunarfælni um efni í nýja Hamarshöll setur allt íþróttalíf í Hveragerði í uppnám,“ segir í bókun minnihlutans.

Þá er flokkurinn enn þeirrar skoðunar að loftborin höll sé hagkvæmasta lausnin. 

Væri óábyrgt að kaupa dúkinn aftur

Fulltrúar hins nýja meirihluta segja hins vegar hagkvæmast til lengri tíma að höllin verði byggð út föstum efnum. Þá sé framkvæmdatíminn raundæmi frá framkvæmdaaðilum.

„Það er mat meirihlutans eftir ítarlega skoðun og upplýsingaöflun síðustu vikna og fundi með ýmsum fagaðilum að hagkvæmast til lengri tíma er að ný Hamarshöll verði byggð úr föstum efnum, s.s. stálgrind eða límtré. Slík hús hafa meiri notkunarmöguleika en loftborin hús auk þess að vera traustari og henta öllum íþróttum. Upplýsingar um framkvæmdatíma eru raundæmi frá framkvæmdaaðilum.

Eins og komið hefur fram í umræðum á þessum fundi hafa ekki borist nægilega skýr svör við mikilvægum spurningum frá Duol og er óábyrgt að taka ákvörðun um kaup á slíku húsi án þess að þær upplýsingar liggi fyrir eins og Sjálfstæðisflokkurinn virðist vilja gera. Það eru hagsmunir íbúa Hveragerðis að horft sé til framtíðar í uppbyggingu íþróttamannvirkja og það gerir meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar,“ segir í bókun meirihlutans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert