Vísbendingar um að bólusetning virki verr á BA.5

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir vísbendingar vera um það að bólusetningar virki verr á BA.5 afbrigði kórónuveirunnar en á önnur afbrigði. 

Endursmitum af völdum Covid-19 hefur fjölgað verulega og mælast nú um 20% af daglegum fjölda smita. Fjölgun smita tengist aukningu á BA.5 afbrigðinu en rannsóknir sýna að það sleppi meira en önnur afbrigði undan ónæmi af völdum fyrri smita.

Hafa bólusetningar öðruvísi áhrif á BA.5 en önnur afbrigði?

„Það er ekki alveg ljóst enn sem komið er því þetta afbrigði er tiltölulega nýkomið,“ segir Þórólfur og bætir við:

„Það eru ekki neinar góðar rannsóknir sem liggja fyrir en þó eru kannski líkur á því að bólusetningin virki verr á þetta afbrigði heldur en önnur afbrigði. Það eru ákveðnar vísbendingar um það.“

Fyrir um tveimur vikum voru endursmit 10% daglegra smita en nú eru þau 20%. Þórólfur segist ekki vita hvar þetta endar en að á undanförnum vikum hefur hlutfall endursmita verið að aukast. Hann segir það haldast í hendur við fjölgunina á BA.5 afbrigðinu.

Hvetur fólk sem greinist heima að fara í PCR

Líkt og áður segir mælast nú endursmit um 20% af daglegum fjölda smita. Þó er reiknað með að hlutfallið sé enn hærra því ekki fara allir sem greinast á heimaprófum í opinber próf.

Aðspurður segir Þórólfur að fólk sé hvatt til að fara í PCR-próf til að hægt sé að halda betur utan um þessar tölur en einnig svo það fái opinbera staðfestingu á sínu smiti.

„Það gæti verið að fólk þyrfti að fá einhver vottorð eða annað slíkt til að ferðast. Maður veit aldrei hvernig það verður og það er ekki hægt að fá vottorð nema hafa opinbera staðfestingu á Covid-19,“ segir hann.

Sér fyrir sér að 60 ára og eldri fái örvunarskammt

Í skýrslu Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) segir að verndin af þriðja bóluefnaskammtinum dvíni á fyrstu þremur mánuðum eftir bólusetningu en að fjórði skammturinn bæti verndina til muna. Hins vegar sé ekki komin nægileg reynsla á hversu lengi hún varir.  

Þórólfur segist þó ekki sjá það fyrir sér að það komi að því að öllum verði boðinn fjórði skammturinn heldur frekar að fólk sem er í ákveðinni hættu og 60 ára og eldri verði boðin örvunarbólusetning með haustinu.

„Ég sé það ekki fyrir mér að fara að bjóða öllum örvunarbólusetningu.“

mbl.is