„Við sjáum að virknin heldur stöðugt áfram“

Fagradalsfjall.
Fagradalsfjall. mbl.is/Skúli Halldórsson

Skjálftavirkni hefur verið svipuð frá því klukkan fjögur í nótt, að sögn Einars Hjörleifssonar náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. 

„Við sjáum að virknin heldur stöðugt áfram, hún kemur í hviðum með stærri skjálftum inn á milli. Það mældist einn stór, 4,2 stig, klukkan fjögur í nótt og svo annar í morgun. Báðir fundust á höfuðborgarsvæðinu og í Grindavík.“

Seinkun á gervihnattamyndum

Nú mælast flestir skjálftarnir á 2 til 4 kílómetra dýpi, og hefur því grynnkað talsvert á skjálftavirkninni sem mældist í gær á 5 til 7 kílómetra dýpi. Skjálftavirknin og grynnkun hennar gæti verið merki um að kvikan sé að brjóta sér leið upp jarðskorpuna. 

„Þess vegna erum við að reyna að staðsetja þessa stærri skjálfta sem við sjáum og fylgjast vel með.“

Veðurstofan átti von á gervihnattamynd í dag sem ætti að hjálpa til við að áætla hve mikil kvika er tekin að safnast saman. Nú er þó ljóst að myndin mun ekki berast fyrr en eftir nokkra daga. Veðurstofan mun í millitíðinni notast við GPS-gögn og reyna að greina út frá þeim hvort um landris sé að ræða. 

„Við teljum þetta vera kvikuhlaup neðanjarðar. Við höfum svo orðið vör við gikkskjálfta sem koma austan við meginskjálftavirknina og suðvestan við skjálftavirknina nær Grindavík. Þessir skjálftar eru út af spennubreytingu á svæðinu og tengjast því ekki kvikuhlaupinu.“

mbl.is