Fyrst og fremst Íslendingar sem greinast í dag

Um helmingi færri fóru í sýnatöku yfir helgina samanborið við …
Um helmingi færri fóru í sýnatöku yfir helgina samanborið við dagana á undan. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það kemur í ljós síðar í vikunni hvernig mannamót yfir helgina höfðu áhrif á útbreiðslu Covid-19 hér á landi, að sögn Guðrúnar Aspelund, sem sinn­ir starfi sótt­varna­lækn­is í fjar­veru Þórólfs Guðna­son­ar.

Um sextíu til hundrað kórónuveirusmit greindust á degi hverjum yfir verslunarmannahelgina sem er þó nokkuð lægri fjöldi en dagana á undan enda helmingi færri sýni tekin. Nýgengi innanlandssmita hefur verið á undanhaldi síðustu daga eftir að hafa farið upp á við í byrjun júlí.

Í gær lágu 40 á sjúkrahúsi með sjúkdóminn, þar af einn á gjörgæslu. Nýgengi innanlandssmita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er 660,2, að því er fram kemur á talnavef Covid.is.

Að sögn Guðrúnar eru það fyrst og fremst Íslendingar sem hafa verið að greinast hér á landi upp á síðkastið en færri ferðamenn hafa greinst samhliða því sem fleiri lönd falla frá kröfunni um neikvætt PCR-próf við komu, til að mynda Bandaríkin.

Minni hætta á að smit berist á milli utandyra

Aðspurð segir Guðrún að hún eigi erfitt með að gera sér grein fyrir hvort smitfjöldinn eigi eftir að taka stökk á næstu dögum vegna útihátíða og mannamóta yfir helgina.

„Mikið af þessu var náttúrulega úti og það er minni smithætta úti. En alls staðar þar sem fólk kemur saman í nánd og er þétt, eins og er á þessum útihátíðum, þá er möguleiki á smitum.“

Hún bindur þó vonir við það að útbreiddar bólusetningar og fyrri smit komi í veg fyrir alvarleg veikindi meðal fólks.

mbl.is