Gróðursetja enn fyrir gjaldþrota fyrirtæki

Kolefnisbindingin á sér stað í gróðri og jarðvegi með landgræðslu …
Kolefnisbindingin á sér stað í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt sem Kolviður hefur umsjón með. mbl.is/RAX

Kolefnissjóðurinn Kolviður þjónustar enn fyrirtæki sem hættu rekstri í kjölfar hrunsins árið 2008, enda er sjóðurinn skuldbundinn til þess að sögn stjórnarformanns sjóðsins. Kolviður þjónustar í dag um 150 fyrirtæki og þúsund einstaklinga við að kolefnisbinda. 

Þá gerði fasteignaþróunarfélagið Festir einnig á dögunum samning við Kolvið um að kolefnisjafna losun vegna framkvæmda á 210 íbúðum sem eiga að rísa í Vesturbæ Reykjavíkur.

Verður það gert með því að gróðursetja 130.450 tré á fjórum stöðum á landinu á þessu ári. Mun þetta kosta fasteignaþróunarfélagið um 33,9 milljónir króna samkvæmt reiknivél á heimasíðu kolefnissjóðsins. 

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, segir í samtali við mbl.is að öll gróðursetning sjóðsins fari fram hér á landi. Kolefnisbindingin á sér stað í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og skógrækt sem Kolviður hefur umsjón með. 

Samninginn undirrituðu Reynir Kristinsson, formaður stjórnar Kolviðar og Róbert Róbertsson, …
Samninginn undirrituðu Reynir Kristinsson, formaður stjórnar Kolviðar og Róbert Róbertsson, framkvæmdastjóri Festis. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum núna að gróðursetja hjá Úlfljótsvatni og Geitasandi. Svo erum við að gróðursetja á Skálholti, Reykholti og í Húsavík.

Við erum að reyna að dreifa þessu sem mest fyrir norðan því við fáum plönturnar þar, en svo er þetta líka áhættudreifing.“

Eignast skóginn að 50 árum liðnum

Að sögn Reynis er Kolviður að leita sér að meira landi til gróðursetningar og á sjóðurinn í viðræðum við marga landeigendur um að fá aðgang að landi hjá þeim.

„Við fáum þá aðgang að landinu og þeir eiga skóginn eftir fimmtíu ár,“ segir hann. Kolviður eignar sér þannig bindinguna í fimmtíu ár og að fimmtíu árum liðnum eignast landeigendurnir skóginn.

„Þetta er talsverð fjárfesting. Um 800 þúsund á hvern hektara þannig að þetta er langtímaávinningur fyrir landeigendur.“

Líkt greint var frá hér að framan sér Kolviður um að binda kolefni fyrir um 150 fyrirtæki og þúsund einstaklinga í dag.

„Sum þeirra eru fyrirtæki sem voru fyrir hrun, en við erum skuldbundin þeim engu að síður. Þó svo að fyrirtæki hættir rekstri þá höldum við áfram að binda það sem við höfum skuldbundið okkur til að binda.

Fyrirtækin láta okkur sjá um að binda í 50 ár, sama hvað gerist fyrir þau. Svo eru um þúsund einstaklingar sem fara í gegnum heimasíðuna okkar.

Stjórnvöld sýni lítinn áhuga

Reynir segir að oft sé verið að skammast út í fyrirtækin fyrir að sýna ekki nógu mikinn áhuga í umhverfismálum. Staðreyndin sé hins vegar sú að þau sýni kolefnisbindingu mikinn áhuga. Hið sama verði þó ekki sagt um stjórnvöld.

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, …
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðar, árið 2019 við undirritun samnings um að kolefnisjafna allan rekstur Ölgerðarinnar, allt árið í kring, í samstarfi við Kolvið og Votlendissjóð. Ljósmynd/Aðsend

„Við höfum gert samninga við fyrirtæki í eigu hins opinbera, s.s. Landsvirkjun og Landsnet, en ekki við stjórnvöld, t.d. Umhverfisstofnun.“

Aðspurður segir hann að Kolviður sé búinn að gróðursetja 1,5 milljónir trjáa en samkvæmt upplýsingum á heimasíðu sjóðsins í dag nemur kostnaður slíks fjölda fyrir viðskiptavini, 390 milljónum króna.

„Þetta er búið að stigmagnast, þannig að við erum að gróðursetja núna í ár um 400 þúsund plöntur og við gerum ráð fyrir því að við gróðursetjum um 700 þúsund á næsta ári. Við stefnum að því að gróðursetja um milljón plöntur á ári.“

Vinna að því að fá alþjóðlega vottun

Að sögn Reynis er Kolviður að vinna að því að fá alþjóðlega vottun fyrir starfsemi sína. „Við erum að vinna í því með Bureau Veritas í London. Við erum í samstarfi við þá um vottun samkvæmt ISO staðli. Við erum að vonast til að það takist á þessu ári.“

Slík vottun gæti komið Kolvið á framfæri á alþjóðavísu. „Það er mikilvægt að við fáum vottun á því að það sem við erum að gera standist alþjóðlegar kröfur sem gerðar eru til bindingar með þessum hætti.“

mbl.is