Spennuþrungin för í kappi við tímann

Forsíðumynd Morgunblaðsins sem var dreift í aldreifingu í dag.
Forsíðumynd Morgunblaðsins sem var dreift í aldreifingu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var algjör keppni við tímann. Það gekk allt upp en þetta rétt náðist,“ segir Árni Sæberg, ljósmyndari hjá Morgunblaðinu, um forsíðumynd Morgunblaðsins sem hann tók í gær.  

Árni fór ásamt nafna sínum Árna Gunnarssyni flugmanni í loftið rétt eftir átta í gærkvöldi til að taka mynd af eldgosinu fyrir forsíðu Morgunblaðsins sem var dreift í aldreifingu í dag. Blaðið átti að fara í prentun klukkan níu í gærkvöldi en fór að lokum í prent klukkan tíu. Er því ljóst að tíminn var af skornum skammti til að ná réttu myndinni þegar haldið var í för sem að Árni segir að hafi verið spennuþrungin.

Birtist eins og himnasending

Árni Sæberg segir í samtali við mbl.is að hann og Árni Gunnarsson hafi upprunalega farið í loftið á lítilli vél klukkan átta. Var þá klukkutími þangað til að hann þurfti að skila af sér myndinni fyrir prentun. 

Þegar þeir voru komnir í loftið áttuðu þeir sig á því að radarvarinn í vélinni væri bilaður þannig að vélin sást ekki á radar hjá öðrum. Þurftu þeir því að snúa við og ná í nýjan radar sem stytti tímann til stefnu enn frekar. 

Eftir að hafa svifið yfir gosinu í nokkra stund segir Árni að hvíta flugvélin sem sést á myndinni hafi birst eins og himnasending inn í ramma. Smellti hann þá af um leið.

„Hún var bara eins og kölluð, bara eins og guðsgjöf. Hún kom þarna og stillti sér upp,“ segir Árni að vonum kátur með myndina sem er einkar tilkomumikil. 

Árni bætir þá við að um leið og hann hafi smellt af vissi hann að forsíðumyndin væri komin. Þá voru ekki nema tíu mínútur í prentun Morgunblaðsins. Færði Árni þá myndina úr myndavélinni og yfir í símann og hóf að vinna myndina eftir bestu getu í símanum.

„Ég náði ekki að senda hana fyrr en fjórar mínútur í níu. Fjórum mínútum áður en blaðið átti að fara í prentun.“

Mynd sem að Árni tók í gærkvöldi á leið frá …
Mynd sem að Árni tók í gærkvöldi á leið frá gosinu þegar það var farið að húma að. mbl.is/Árni Sæberg

Ánægður með myndina

Að mati Árna er myndin mjög vel lukkuð og sérstaklega þar sem tíminn var á tæpasta vaði.

„Þetta sýnir allt hraunið og sýnir líka svo vel stærðina á umfangi gossins. Þetta stækkaði gífurlega frá hálf tvö til níu.“

Hann segir allt hafa farið á þann máta að það hjálpaði honum að ná sem bestri mynd. 

„Þegar við þurftum að snúa við þá töpuðum við korteri og sólin því komin neðar. Það voru komnar skýjaslæður þarna í kring og því góður skuggi á þessu. Síðan eru skemmtileg smáatriði í þessu eins og fólkið neðst á myndinni.“

mbl.is