Lítil breyting á gosinu frá því í gærkvöldi

Ljósmyndari mbl.is var á vettvangi í gær.
Ljósmyndari mbl.is var á vettvangi í gær. mbl.is/Hákon Pálsson

Lítil breyting hefur verið á eldgosinu í Meradölum frá því í gærkvöldi, að sögn náttúrvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. 

Í gær þegar mbl.is ræddi við Ármann Höskuldsson,  eld­fjalla­fræðing­ur hjá jarðvís­inda­stofn­un Há­skóla Íslands, sagði hann að gossprungan væri búin að styttast og lengdin væri nú rétt innan við hundrað metra. Þá nam hraunrennslið um 10 til 15 rúmmetrum á sekúndu. Er það álíka mikið og þegar að eldgosið í Geldingadölum var upp á sitt besta. 

„Það hefur ekki verið nein breyting á þessu. Þetta er bara að malla,“ segir Böðvar Sveinsson náttúruvársérfræðingur.

Þoka er á svæðinu núna en það á að létta til eftir því sem líður á daginn. Á morgun verður aftur á móti mjög hvasst og rigning. 

Hvað gosmengun varðar segir Böðvar ekki útlit fyrir að hún geri vart við sig fyrr en upp úr hádegi í dag. Þá stefnir hún í átt að Hveragerði fyrst en svo breytist vindáttin og mengunin fer í áttina að Þorlákshöfn, Stokkseyri og Eyrarbakka.

Hægt er að fylgjast með gasdreifingarspá inn á vef Veðurstofunnar.

mbl.is
Loka