„Þetta er komið gott“

„Staðreyndin er sú að börn í Reykjavík eru skilin eftir,“ …
„Staðreyndin er sú að börn í Reykjavík eru skilin eftir,“ segir Sara Björg. mbl.is/Hari

Reglur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga mismuna börnum í Reykjavík á grundvelli búsetu og uppruna. Löngu er kominn tími á að endurskoða hvernig framlögum er úthlutað úr sjóðnum enda hefur börnum með erlendan bakgrunn á grunnskólaaldri fjölgað um 78% frá árinu 2016 til ársins 2021 í Reykjavík. Þrátt fyrir það er Reykjavík enn þá eina sveitarfélagið þar sem þessi hópur fær ekki greitt úr sjóðnum. 

Þetta segir Sara Björg Sigurðardóttir, formaður íbúaráðs í Breiðholti og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar. 

„Mér finnst við standa á tímamótum. Þetta er komið gott. Við viljum ekki tvískipt samfélag, við viljum ekki búa til umgjörð þannig að þessi hópur sitji eftir og skattgreiðendur í Reykjavík greiði fyrir öll önnur börn á landinu nema sín eigin í gegnum Jöfnunarsjóð. Það er ekkert sem er gott við þetta enda um hreina og klára mismunun að ræða,“ segir Sara Björg í samtali við mbl.is.

Sara Björg Sigurðardóttir, formaður íbúaráðs í Breiðholti og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Sara Björg Sigurðardóttir, formaður íbúaráðs í Breiðholti og varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Ljósmynd/Aðsend

Börn í Reykjavík skilin eftir

Jöfnunarsjóður greiðir um 130 þúsund krónur með hverju barni af erlendum uppruna á öllu landinu að undanskildum þeim sem eru búsett í Reykjavík. Þá er ótalið grunnskólaframlagið sem greitt er með öllum grunnskólabörnum á landinu - nema í Reykjavík.

Hún segir íslenskt samfélag beri skyldur gagnvart því fólki sem hingað kemur erlendis frá. Á síðustu árum hafi börnum með annað móðurmál en íslensku fjölgað úr 1.677 í 3.000 í grunnskólum Reykjavíkur, þá hafi svipuð þróun verið upp á teningnum í leikskólum borgarinnar.

 „Staðreyndin er sú að börn í Reykjavík eru skilin eftir. Reykjavík hefur verið að forgangsraða í þágu barna af erlendum uppruna en þessir fjármunir yrðu mikilvæg viðbót við þá þjónustu sem nú er veitt.“

Hópur sem er kominn til að vera

Sara Björg segir að um umtalsverðar fjárhæðirnar sé að ræða, sérstaklega þegar grunnskólaframlagið er talið með. Það eitt og sér er áætlað um 4,5 milljarðar á ári ásamt um 390 milljón króna árlegu framlagi sem börn af erlendum urðu af á síðasta ári. Þetta eru fjármunir sem myndu gagnast vel í öllu skólastarfi í borginni og efla allt faglegt starf sem nú þegar er unnið í skólum borgarinnar, sér í lagi í hverfum þar sem hátt hlutfall barna eru tvítyngd eða þrítyngd.

„Þetta er hópur sem er kominn til að vera og við þurfum að halda vel utan um og passa vel upp á hann,“ segir Sara Björg sem bendir jafnframt á að Jöfnunarsjóðurinn falli undir innviðaráðuneytið, ráðuneyti sem kalli nú eftir alls konar framkvæmdum í samfélaginu sem erfiðlega mun ganga að framkvæma nema með aðstoð aðflutts vinnuafls. 

„Við sjáum það að við erum ekki að fara að manna þessar framkvæmdir eingöngu með okkar fólki. Við þurfum aðflutt vinnuafl. Með hverri vinnandi hendi fylgja oft fjölskyldur og þær setjast líka að í Reykjavík eins og alls staðar út um land.“

Vill fá svör frá ráðherra

Sara Björg telur Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra þurfa að svara fyrir hvers vegna þessi leið hafi verið farin, hvers vegna hún hafi ekki verið endurskoðuð í ljósi fjölgunar barna með erlendan bakgrunn og hvort ráðherrann ætli að halda áfram að mismuna börnum í borginni á grundvelli uppruna og búsetu eins og nú sé raunin.

Þá hvetur hún hann til að gera frumvarp Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem liggur fyrir þinginu, að sínu en það myndi jafna hlut barna yfir landið allt.

mbl.is