Samtökin 78 fjársvelt og regnbogaþvottur sýnilegur

Frá hinsegin dögum um helgina.
Frá hinsegin dögum um helgina. Ljósmynd/Unnur Karen

„Auðvitað þarftu ekki að millifæra á okkur til að sýna regnbogafánann en óhjákvæmilega hugsar maður hver tilgangurinn sé með þessu þegar maður sér stórfyrirtæki flagga regnbogafánanum en þau eru síðan ekki til í samtal við okkur.“

Þetta segir Daníel E. Arn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­tak­anna '78, í samtali við mbl.is um regnbogaþvott stórfyrirtækja á Íslandi sem að sögn Daníels er töluverður.

Segir hann samtökin fá lítið fjármagn frá ríkinu og fyrirtækjum. Það skjóti skökku við í ljósi sýnileika baráttunnar hjá ýmsum aðilum.

Starfsemi margfaldast en fjármagn ekki

Daníel segir að samtökin séu fjársvelt og að töluvert meira fjármagn þurfi frá ríkinu til að hægt sé að sinna störfum samtakanna sem eru að hans mati einkar mikilvæg. Hann bendir á að Samtökin fái aðeins 15 milljónir árlega frá ríkinu sem að hans mati er mjög lítið samanborið við sambærileg samtök í nágrannaþjóðum okkar.

Systursamtök Samtakanna 78  í Noregi fá til dæmis 349 milljónir árlega. „Þetta er búin að vera staðan núna í þrjú til fjögur ár. Þegar við erum búin að segja upp öllu starfsfólki okkar, þá kemur fjárlaganefnd [Alþingis] á síðustu stundu og bjargar okkur fyrir horn.“

Að mati Daníels er þetta ástand óásættanlegt og hann segir að um 100 milljónir þurfi frá ríkinu árlega til að samtökin geti sinnt sinni starfsemi svo vel megi vera og þjónustað fólk sem þarf á því að halda.

Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78 og varaþingmaður VG.
Daníel E. Arnarsson, framkvæmdastjóri Samtakanna 78 og varaþingmaður VG. Ljósmynd/Aðsend

„Við erum ábyrg félagasamtök og við getum ekki farið að lengja biðlistana ennþá meira í ráðgjöfina okkar, því við erum oft eini staðurinn fyrir marga einstaklinga og aðstandendur.“

Hann bendir á að starfsemi samtakanna hefur margfaldast á síðustu árum en að fjármagnið hafi ekki gert það. „Félagsmiðstöðin okkar hefur tífaldast á fimm árum, ráðgjafaþjónustan hefur sexfaldast, stuðningur við hælisleitendur og flóttafólk hefur einnig margfaldast.“

Þá bætir hann við að húsnæðið utan um þjónustuna sé fyrir löngu sprungið.

Árið 2022 hafa Samtökin 78 fengið samtals 49 milljónir frá ríkinu. Fimmtán milljónir komu frá forsætisráðuneytinu sem partur af árlegum greiðslum frá ráðuneytinu til samtakanna. Þá komu 24 milljónir til viðbótar samkvæmt ákvörðun fjárlaganefndar Alþingis og 10 milljónir frá félagasmálaráðuneytinu vegna stuðnings við eldra hinsegin fólk og hinsegin flóttafólk. 

Árið 2017 voru Samtökin 78 með alls 6,8 milljónir í stuðning frá ríkinu fyrir allt árið.

Regnbogaþvottur víðs vegar

Hann segir að ábyrgðin geti ekki legið hjá einstaklingum í samfélaginu að halda uppi félagasamtökum. Ríkið og fyrirtæki verði að stíga inn í ef ætlunin er að viðhalda starfseminni.

Hann ítrekar þó að annað gildi um burðug fyrirtæki sem velta mörgum milljónum eða milljörðum en lítil fyrirtæki sem hafi e.t.v. ekki fjárhagslega burði til að styrkja samtökin að ráði fjárhagslega en vilji sýna stuðning við baráttu hinsegin fólks.

„Það má ekki setja öll fyrirtæki undir sama hatt. Við eigum líka góð fyrirtæki sem hafa sýnt okkur stuðning,“ segir Daníel. Hann bætir við að þau hjá samtökunum hafi haft samband við stórfyrirtæki en ekki fengið nein svör eftir að stórfyrirtæki hafi auglýst undir formerkjum regnbogafánans. 

Aðeins fjögur fyrirtæki sem styrkja

Spurður hvort um sé að ræða regnbogaþvott svarar Daníel því játandi. „Við höfum orðið var við það. Fyrirtæki segja kannski að það sé allt í góðu hjá þeim og í þeirra starfsumhverfi og flagga regnbogafánanum en síðan heyrir maður af sömu fyrirtækjum að svo sé alls ekki.“

Hann segir þá að meira sé um þennan svokallaða regnbogaþvott en fólk gerir sér grein fyrir.

Hann undirstrikar þó hvað hann er þakklátur þeim fyrirtækjum sem styrkja samtökin en þau eru aðeins fjögur. Það eru nánar tiltekið Landsbankinn, Te & Kaffi, Norræna húsið og Advania.

„Þrátt fyrir fjárhagsáhyggjur, þá má hinsegin fólk sem er í þjónustu hjá okkur vita að við erum ekkert að fara. Við vinnum baki brotnu til að finna leiðir til framtíðar, til að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur af starfseminni,“ segir Daníel í lok samtalsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert