„Þetta getur gerst í dag líka“

Eldgosið sem varð í Hnappafellsjökli árið 1362 er eitt það mannskæðasta sem hefur orðið á Íslandi. Byggðin næst jöklinum, Litla-Hérað, eyddist og talið er að um fjögur hundruð hafi látið lífið.

Jökullinn hlaut í kjölfarið nýtt viðeigandi heiti, Öræfajökull, og sömuleiðis sveitin sem lagðist í eyði, sem síðan hefur nefnst Öræfi.

Ekki er útilokað að svipað eldgos komi fyrir aftur, þó ómögulegt sé að vita hvenær það verði.

Sentimetra lag á ystu jöðrum landsins

Þetta segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands, en hann var gestur í nýjasta þætti Dagmála. Þar var rætt um eldgos og eldfjöll á Íslandi, og þá yfirvofandi hættu sem fylgir þeim.

„Við vitum líka út frá eldgosasögunni að við höfum haft hér eldgos sem eru feiknastór – eru gjóskumyndandi og jafnvel mynda gjóskufall um allt land þar sem þú sérð kannski sentimetra eða meira á ystu jöðrum landsins,“ segir Þorvaldur og vísar þá meðal annars til eldgossins í Öræfajökli.

Sigketill á hjarnbreiðu Öræfajökuls.
Sigketill á hjarnbreiðu Öræfajökuls. mbl.is/RAX

Geta búið til svona gos mjög auðveldlega

Að sögn Þorvalds er talið að gjóskufallið úr gosinu árið 1362 hafi verið það mikið að landið í kring hafi verið þakið nokkurra metra þykku lagi af vikri. Mest af gjóskunni barst þó út á haf. 

„Þetta getur gerst í dag líka. Eldfjöll eins og Öræfajökull, Askja og Snæfellsjökull, þau geta búið til svona gos mjög auðveldlega. Og Hekla líka. Hvort þau gera það á okkar líftíma, það er allt annar handleggur.“

mbl.is