Gjóskuflóð færu hratt niður hlíðar

„Eldur upp kom í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona, og kapall.“

Svo stendur ritað í Oddverjaannál, um þær hamfarir sem fylgdu eldgosinu í Hnappafellsjökli í júní árið 1362. Fjórir áratugir liðu þar til fólk settist aftur að undir jöklinum. Ljóst er að ekki var þar eins umhorfs og áður enda nefndist sveitin nú Öræfi, og jökullinn eftir henni.

Síðan eru liðin rúm 650 ár og tíminn hefur grætt sár náttúrunnar, þó að örin sjáist enn. Þau ör hafa íslenskir jarðfræðingar rannsakað, einkum dr. Ármann Höskuldsson og dr. Þorvaldur Þórðarson, sem telja allar líkur á að gusthlaup og gjóskuflóð hafi eytt byggðinni í Litla-Héraði.

Fjallað var um rannsókn þeirra í Morgunblaðinu árið 2005, þar sem þeir sögðu fornleifafund bæjarhúsa í Öræfum benda til þessa.

Ragnar Axelsson, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is, flaug yfir Öræfajökul í …
Ragnar Axelsson, ljósmyndari Morgunblaðsins og mbl.is, flaug yfir Öræfajökul í gær. Ef glöggt er að gáð, og til vitnis um stærð sigketilsins, má sjá hvar Ómar Ragnarsson er á flugi í frúnni, TF-FRU. mbl.is/RAX

„Bræðir jökulinn og rennur glóðheit niður hlíðarnar“

Í samtali við mbl.is í dag segir Ármann að frekari rannsóknir hafi aðeins styrkt þá kenningu í sessi. Óvéfengjanleg merki hafi fundist um gusthlaup í grennd Öræfajökuls og leifar um þau sé að finna frá Kvískerjum og vestur að Sandfelli. Leifar gjóskuhlaupa megi þá finna á söndunum suður af Knappavöllum, á Sléttubjörgum og í Hvalvörðugili. Gusthlaupin séu líklega að hluta fylgifiskur umræddra gjóskuflóða.

„Við höfum fengið staðfestingu á því að árið 1362 verður til gríðarlega hár gosmökkur, eða um 30 til 40 kílómetra hár. Svona stórir gosmekkir geta ekki staðið undir sjálfum sér, sem verður þá til þess að þeir hrynja saman. Þá fellur askan niður og ryðst út eftir landinu, í stað öskufalls verður öskuflóð, hún bræðir jökulinn og rennur svo glóðheit niður hlíðarnar,“ segir Ármann.

„Verði stórt sprengigos í Öræfajökli þá getum við reiknað með því að fá slíkt flóð út á jökulinn og niður hlíðarnar, sem færi ansi hratt yfir.“

Útbreiðsla og helstu farvegir jökulhlaupsins árið 1362, samkvæmt niðurstöðum Sigurðar …
Útbreiðsla og helstu farvegir jökulhlaupsins árið 1362, samkvæmt niðurstöðum Sigurðar Þórarinssonar. Kort/Forgreining áhættumats almannavarna

Færu niður hlíðar á 100 til 150 km/klst.

Hann tekur þó fram að ekki sé endilega reiknað með sprengigosi í jöklinum, fari svo að fjallið gjósi yfir höfuð.

„Þegar við lítum yfir söguna sjáum við að hann er annars vegar með frekar basísk gos, sem mynda hraun, af svipaðri stærðargráðu og það gos sem við sáum á Fimmvörðuhálsi. En ef gosið teygir sig upp í jökulinn þá verður sprengigos. Líklega yrði gosmökkurinn í slíku eldgosi ekki jafnhár og árið 1362, heldur í um 4 til 10 kílómetra hæð.“

Basísku eldgosi gætu fylgt jökulhlaup niður hlíðar jökulsins, en í eldgosi þar sem hár gosmökkur fellur saman og myndar gjóskuflóð færu þau á ógnarhraða niður hlíðarnar, eða á 100 til 150 kílómetra hraða á klukkustund.

Ármann segir víða mega finna merki um gjóskuflóð í jarðsögu Íslands, í elsta berginu en einnig því yngra. Þau hafa þó ekki verið mörg síðan landið byggðist, en fyrir utan gosið í Öræfajökli árið 1362 má helst nefna Öskjugosið árið 1875 og Heklugosið árið 1947.

„Árið 1947 þá vissu menn í raun ekki hvað þetta var og allt var þetta túlkað sem jökulhlaup. En þetta var náttúrulega ekki jökulhlaup, heldur gjóskuflóð sem kom úr gosmekkinum. Sem betur fer fleytir þekkingunni aðeins fram, þannig að menn átta sig sífellt betur á þessu.“

Hugsanlegt gjóskuflóð ef stórgos yrði nyrst í öskju Öræfajökuls.
Hugsanlegt gjóskuflóð ef stórgos yrði nyrst í öskju Öræfajökuls. Mynd/Forgreining áhættumats almannavarna

Fimmtíu metra hafdýpi varð að landi

Fram kemur í forgreiningu áhættumats vegna jökulhlaupa af völdum goss í Öræfajökli, sem unnin var af sérfræðingum nokkurra stofnana fyrir almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, að nærri engar samtímaheimildir eru um eldgosið árið 1362.

Er vísað til greinar Sigurðar Þórarinssonar þar sem hann fer yfir þær fáu heimildir sem fyrir liggja og dregur af þeim þá ályktun að gosið hafi orðið árið 1362. Vitnaði Sigurður til annála þar sem þess er getið að mikið gos hafi orðið í jöklinum, Litla-Hérað hafi eyðst og sömuleiðis stór hluti Hornafjarðar og Lónshverfis.

„Hér með hljóp Knappafellsjökull fram í sjó þar sem áður var þrítugt djúp, með grjótfalli, aur og saur að þar urðu síðan sléttir sandar. Tók og af tvær kirkjusóknir með öllu, að Hofi og Rauðalæk,“ er haft eftir annálsbroti frá Skálholti.

Í skýrslunni er dregin sú ályktun af þessu að jökulhlaupið hafi borið fram svo mikinn aur að þurrt land hafi myndast þar sem áður var talið vera nálægt 50 metra, eða þrjátíu faðma, dýpi.

Horft til Öræfajökuls að sumri til.
Horft til Öræfajökuls að sumri til. mbl.is/Sigurður Bogi

20 til 30 mínútur frá upphafi goss að þjóðvegi 1

Hætta vegna jökulhlaupa við eldgos í Öræfajökli er í skýrslunni metin mikil eða geysimikil á um 340 ferkílómetra svæði, sem nær yfir svo til allt láglendi suðurstrandarinnar austan Skaftafells austur fyrir Kvíárjökul.

Auk íbúa gistir fjöldi ferðafólks þar yfir háannatímann og er full rýming talin taka að lágmarki 35-40 mínútur við bestu aðstæður. Það er lengri tími en stysti mögulegi framrásartími hlaupa. Ef forða á fólki þarf því að hefja rýmingu áður en gos hefst, að því er fram kemur í skýrslunni.

Segir þá að skipta megi gerðum hlaupa vegna eldgosa í Öræfajökli í þrennt.

Í fyrsta lagi hlaup vegna sprungugosa undir tiltölulega þunnum jökli í hlíðum fjallsins, í öðru lagi hlaup vegna gosa undir þykkum jökli í öskjunni og í þriðja lagi hlaup vegna bráðnunar á yfirborði jökulsins í heitum gjóskuflóðum.

Sprungugos í hlíðum geti valdið hlaupum af stærðargráðunni 3.000–6.000 m³/s en stórgos í öskjunni geti orsakað hamfarahlaup, stærri en 100.000 m³/s. Stærðargráða hlaupa vegna gjóskuflóða í stórgosum sé metin 10.000–20.000 m³/s.

Til samanburðar má nefna að í vatnsmestu á Íslands, Ölfusá, mælist meðalrennslið 400 m³/s.

Reiknaður lágmarkstími (í mínútum) þar til hlaup vegna gjóskuflóðs í …
Reiknaður lágmarkstími (í mínútum) þar til hlaup vegna gjóskuflóðs í Svínafellsjökli nær að þjóðvegi og áfram niður eftir (tímar eru sýndir sem hvítar jafntímalínur en við þjóðveginn sem hvítur punktur). Kort/Forgreining áhættumats almannavarna

Allt að 130 manns gætu verið í lífshættu

Framrásartími hlaupa yrði þá í öllum tilvikum stuttur, eða að lágmarki 20–30 mínútur frá upphafi goss þar til hlaup næði að þjóðvegi 1, að því er segir í skýrslunni.

Hlaup gætu náð að hringvegi framan við helstu framrásarleiðir á 20-30 mínútum frá upphafi gosa. Hlaupið kann að fara yfir stærstan hluta láglendis milli Skaftafellsár og Breiðár, en það er um 340 ferkílómetrar að stærð. Talið er líklegt að lítill hluti svæðisins fari undir í hverju hlaupi en mjög fáir staðir geti talist öruggir.

„Ef frá Öræfajökli kæmi stærsta gerð af hlaupi sem talið er mögulegt, og ef slíkt gerðist án viðvörunar og rýmingar, gætu allt að 130 manns verið í lífshættu og 240-250 manns til viðbótar lokast inni vegna skemmda á vegakerfinu.

Forsenda byggðar og áframhaldandi uppbyggingar ferðamennsku og annarrar atvinnustarfsemi í Öræfasveit er því gott vöktunar- og viðbragðskerfi. Í því fælist nákvæm vöktun eldfjallsins ásamt því að sett yrði upp viðeigandi viðvörunarkerfi og viðbragðsáætlanir gerðar og þær uppfærðar með reglulegu millibili,“ segir í skýrslunni, en fjallað var um hana í Morgunblaðinu fyrr á þessu ári.

Reiknaður lágmarkstími (í mínútum) þar til hlaup vegna gjóskuflóðs í …
Reiknaður lágmarkstími (í mínútum) þar til hlaup vegna gjóskuflóðs í Suðurhlíðum nær að þjóðvegi og áfram niður eftir (tímar eru sýndir sem hvítar jafntímalínur en við þjóðveginn sem hvítur punktur). Kort/Forgreining áhættumats almannavarna

Gusthlaup verða víða um heim

Sambærilegt gusthlaup við það sem merki fundust um austur í Öræfum varð á eynni Martinique í Karíbahafi árið 1902. Þar kom skyndilegt gusthlaup úr eldfjallinu Mt. Pelée og deyddi nærri 28 þúsund íbúa borgarinnar Saint-Pierre að morgni 8. maí 1902.

Eftir að hlaupið hafði eytt öllum borgarbúum, utan einum sem bjargaðist úr dýflissu bæjarins, og brennt öll hús voru einu merkin um hlaupið þunnt lag af öskudufti sem lá yfir öllu.

Svipað gerðist í Pompei á Ítalíu þegar Vesúvíus gaus árið 79. Þar deyddi gusthlaup flesta íbúa borgarinnar, en aðrir fórust þegar húsin hrundu yfir þá sem eftir lifðu.

Sigketillinn var við síðustu mælingar um 1 km í þver­mál …
Sigketillinn var við síðustu mælingar um 1 km í þver­mál og 15-20 m djúp­ur. mbl.is/RAX
mbl.is