Deilt um skógrækt í Skorradal

Mýri í Skorradal. Plantað er í brún rás­anna og þær …
Mýri í Skorradal. Plantað er í brún rás­anna og þær veita trjá­plönt­un­um skjól auk þess sem hlýtt er í rás­un­um. Ljósmynd/ Sigurður h. Magnússon

Skógræktin hefur kært til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála þá ákvörðun Skorradalshrepps að synja umsókn hennar um framkvæmdaleyfi til skógræktar á tveimur jörðum í hreppnum.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, þriðjudag.

„Nú er málið í lögformlegu ferli. Hreppurinn hafði vald til að stöðva framkvæmdir og þar við situr þar til við fáum úr þessu skorið,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.

Hann telur sérstakt að hægt sé að stöðva skógrækt á svæði sem ætlað sé til skógræktar.

Samrýmist ekki aðalskipulagi

Skipulagsfulltrúi Skorradalshrepps, Sigurbjörg Áskelsdóttir, er aftur á móti sannfærð um að framkvæmdirnar samrýmist ekki stefnu þeirri sem mörkuð er í aðalskipulagi. Skógræktin mun beita sér fyrir því að fá í gegn framkvæmdaleyfi og ætlar sér því ekki að aðhafast neitt á svæðinu fyrr en það er í höfn.

Skógræktarstjóri tekur fyrir það að framkvæmdir á vegum Skógræktarinnar séu óæskilegar fyrir náttúruna og bendir á að þetta snúist um mismunandi áherslur.

„Ef þú hefur auga fyrir gróðri sérðu land sem myndi njóta gagns af því að fá skóg. Sumir vilja aftur á móti að land sé skóglaust og þeim er frjálst að hafa þá skoðun,“ segir Þröstur.

Meira í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert