Stuðningurinn hefur margfaldast

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðgerðir stjórnvalda takast á við verðbólguna …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir aðgerðir stjórnvalda takast á við verðbólguna með því að verja tekjulægstu hópanna og boða aðhald í ríkisfjármálum á næsta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun beita sér fyrir því að Samtökin '78 fái frekari varanleg fjárframlög frá stjórnvöldum en bendir hún jafnframt á að framlög til þeirra hafi margfaldast síðan ríkisstjórn hennar tók við árið 2017.

Daní­el E. Arn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­tak­anna '78, sagði í samtali við mbl.is í gær að samtökin væru fjársvelt og kallaði eftir frekari stuðningi frá stjórnvöldum. 

„Þegar þessi ríkisstjórn tók við árið 2017 voru þessi samtök með 6,8 milljónir króna. Í stuðningi ríkisins á þessu ári nemur stuðningurinn 49 milljónum króna. Þannig að það sjá það allir að stuðningurinn hefur margfaldast í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er ekki tilviljun, við höfum viljað sýna það í verki að stjórnvöld standi með mannréttindabaráttu hinsegin fólks. Það höfum við gert bæði með fjárframlögum og margvíslegum réttarbótum,“ segir Katrín í samtali við mbl.is. Nefnir hún meðal annars lögin um kynrænt sjálfræði sem voru samþykkt árið 2019. 

Erfitt að vera árlega í óvissu

Varanlegur stuðningur stjórnvalda til samtakanna nema 15 milljónum ár hvert. Í ár hafa þau þó fengið alls 49 milljónir frá ríkinu. Komu 10 millj­ón­ir frá félagsmálaráðuneytinu vegna stuðnings við eldra hinseg­in fólk og hinseg­in flótta­fólk og 24 millj­ón­ir til viðbót­ar sam­kvæmt ákvörðun fjár­laga­nefnd­ar Alþing­is.

Katrín hyggst beita sér fyrir því að stærri hluti framlaganna verði gerður varanlegur.

„Ég mun beita mér fyrir því að stærri hluti af þessum stuðningi verði gerður varanlegur. Maður skilur það auðvitað að það er flókið fyrir félagasamtök sem hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna, bæði hvað varðar fræðslu en líka hvað varðar þjónustu við viðkvæma hópa, að það er erfitt að þau séu alltaf í óvissu árlega um hversu há framlögin verða,“ segir Katrín. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert