Erlendir ferðamenn fleiri en fyrir faraldurinn

Bandaríkjamenn hafa lengst af verið fjölmennasti hópur erlendra farþega sem …
Bandaríkjamenn hafa lengst af verið fjölmennasti hópur erlendra farþega sem fara frá landinu um Leifstöð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í síðastliðnum júlí voru rúmlega 234 þúsund brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll og jókst fjöldi brottfara um 1,3% af því sem þær voru árið 2019. 

Þetta er í fyrsta sinn eftir faraldur sem fjöldinn er meiri í einum mánuði en í sama
mánuði 2019. 

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Ferðamálastofu. 

Bandaríkjamenn um þriðjungur farþega

Flestar brottfarir voru tilkomnar vegna Bandaríkjamanna, en þeir voru 79 þúsund talsins eða um þriðjungur af brottförum. Þá hafa Bandaríkjamenn verið fjölmennasta þjóðernið í júlímánuði síðan 2013. 

Þjóðverjar hafa lengst af verið næstfjölmennasta þjóðerni ferðamanna í júlímánuði, en þeir voru 17 þúsund talsins í ár og því um 7,3% af heild brottfara. 

Næstu þjóðerni á eftir eru svipaður hluti af heild, en brottfarir Dana voru í þriðja sæti í júlí og voru 5,6% af heild. Brottfarir Frakka voru í fjórða sæti í júlí og voru þær um 5,1% af heild, en þar á eftir fylgdu Bretar sem voru um 5,1%. 

Ferðamönnum frá Danmörku hefur fjölgað mest en 76% fleiri danskir ferðamenn voru hér á landi í júlí en í sama mánuði 2019. Næstmesta fjölgunin er í ferðamönnum frá Ítalíu, eða 59%, og þriðja mesta fjölgunin er hjá hollenskum ferðamönnum, 24%.

Ferðamönnum frá Asíu hefur fækkað

Ferðamönnum frá Asíu fækkaði mikið eftir faraldur eins og ferðamönnum frá öðrum heimsálfum. Þeim hefur hins vegar ekki fjölgað jafn mikið hér á landi að undanförnu eins og ferðamönnum frá öðrum heimsálfum.

Þannig var fjöldi ferðamanna frá Japan í júlí einungis 39% af fjöldanum 2019 og fjöldinn var einungis 13% frá Kína.

Hluti af ástæðunni fyrir þessum litla fjölda frá Kína er hár fjölda Covid-19 smita framan af ári á sama tíma og flest Evrópuríki og ríki Norður-Ameríku höfðu náð góðum tökum á vandamálinu.

Langt í þann fjölda sem var fyrir faraldurinn

Frá áramótum hafa rúmlega 870 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi, en langt er í þann fjölda farþega sem var fyrir kóronaveirufaraldurinn þar sem farþegar voru um 1,3 milljónir árið 2018 á sambærilegu tímabili. 

Fjöldi erlendra farþega sem fóru frá Keflavíkurflugvelli hefur augljóslega aukist frá því þegar  takmarkanir á flugferðalögum stóðu sem hæst, en í júlímánuði í fyrra voru brottfarir erlendra farþega 109.935 talsins. 

Brottfarir Íslendinga voru tæplega 65 þúsund talsins í júlí og hafa aðeins einu sinni áður mælst fleiri í júlí, en það var árið 2018 og voru þær um þúsund fleiri en í ár. Frá áramótum hafa brottfarir Íslendinga mælst um 332 þúsund eða 85% af því sem þær mældust á sama tímabili 2018.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert