Harmar stuld styttunnar

Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, segir umgengni á Hallormsstað almennt til …
Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, segir umgengni á Hallormsstað almennt til fyrirmyndar. Hins vegar kveði við nýjan tón eftir skemmdarverk og stuld styttu Þorsteins Valdimarssonar skálds frá Brunahvammi í Vopnafirði. Ljósmynd/Aðsend

„Það veit enginn, þetta hefur bara verið brotið af stallinum,“ segir Pétur Halldórsson, kynningarstjóri Skógræktarinnar, í samtali við mbl.is og á við bíræfinn þjófnað brjóstmyndar skáldsins Þorsteins Valdimarssonar frá Brunahvammi í Vopnafirði sem mbl.is greindi frá fyrr í dag.

Hvarf brjóstmyndin frá Hallormsstað sem skáldið tók á sínum tíma miklu ástfóstri við, starfaði það meðal annars hjá Skógræktinni á staðnum árabilið 1957 – 1969 og er höfundur fjölda örnefna þar á svæðinu.

„Okkur datt hreinlega í hug að einhver hefði setið á styttunni og hún svo brotnað,“ heldur Pétur áfram en Skógræktin hefur tilkynnt atburðinn til lögreglu á Egilsstöðum sem þjófnað og skemmdarverk.

Þekktur herstöðvarandstæðingur

Varla er Hallormsstaður daglegur vettvangur spellvirkja og þjófnaða eða hvað? „Nei, hér hefur almennt verið gengið vel um,“ segir kynningarstjórinn. „Lögreglan kom á vettvang og tók skýrslu en svo veit ég ekkert hvað gerist,“ segir Pétur sem ekki hefur á hraðbergi hve lengi brjóstmynd Þorsteins hafði staðið.

Á þessari samsettu mynd má sjá hvernig óprúttnir aðilar hafa …
Á þessari samsettu mynd má sjá hvernig óprúttnir aðilar hafa farið ránshendi um Hallormsstað. Lögreglan á Egilsstöðum hefur málið til rannsóknar. Ljósmynd/Aðsend

„Hann var mikill hernaðarandstæðingur, gekk margar Keflavíkurgöngur. Og það voru Samtök herstöðvarandstæðinga sem gáfu þessa styttu á sínum tíma,“ heldur Pétur áfram. „Við vonum bara að styttan finnist, þetta er leiðindamál,“ segir hann að lokum um þjófnaðinn.

Lögreglan á Egilsstöðum svaraði ekki í síma þegar mbl.is gerði tilraun til að forvitnast um stöðu rannsóknarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert