„Þetta er svolítið búið að vera villta vestrið“

Stjórnvöld eru á leið í mikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.
Stjórnvöld eru á leið í mikla uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. mbl.is/​Hari

Starfshópur hefur verið skipaður til að fjalla um tillögur Ljóstæknifélagsins um að innleidd verði heildstæð umfjöllun um ljósvist í byggingarreglugerð. Formaður félagsins fagnar því að málið sé komið á dagskrá en telur að búið sé að hunsa þær aðferðir sem til eru til að meta umhverfisaðstæður allt of lengi.

Í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu á mánudag kallaði Páll Jakob Lín­dal, doktor í umhverfissálfræði, eftir því að litið væri til áhrifa umhverfis á heilsu og vellíðan fólks í þeirri miklu uppbyggingu sem á að eiga sér stað um land allt á næstu árum.

Benti hann á að á höfuðborgarsvæðinu hafi verið byggð hverfi, t.a.m. Smárahverfið, þar sem hönnun og skipulag verði til þess að birtuskilyrði séu ekki nægilega góð. Getur það haft slæm áhrif á heilsu og vellíðan fólks.

Líkt og mbl.is hefur greint frá ætla stjórnvöld, í samstarfi við sveitarfélög, í gríðarlega uppbyggingu íbúðarhúsnæðis um land allt á næstu árum. Á alls að byggja um 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum.

Dr. Ásta Logadóttir, lýsingarsérfræðingur hjá Lotu og formaður Ljóstæknifélagsins, segir skort á dagsljósi geta haft mikil áhrif á svefn fólks og ýtt undir þunglyndi. Hún telur mikilvægt að drífa málið í gegn þar sem þétting byggðar sé farin að ganga langt fram og mikil uppbygging sé í vændum um allt land.

„Við höfum ekki tíma til þess að bíða. Við þurfum að vaða áfram í þessum málum vegna þéttingu byggðar. Núna er tíminn til að bretta upp ermar. Við erum búin að bíða alltof lengi og hunsa þessar aðferðir til að meta umhverfisaðstæður.“

Ásta telur brýnt að klára verkið sem fyrst.
Ásta telur brýnt að klára verkið sem fyrst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tillögur að danskri fyrirmynd

Ásta hefur lengi barist fyrir því að koma að nýjum ljósvistarkafla í byggingarreglugerð. Því fagnar hún því mjög að nú hefur verið skipaður átta manna starfshópur á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem mun fara yfir tillögur Ljóstæknifélagsins, en tillögurnar fela í sér að innleidd verði heildstæð umfjöllun um ljósvist í byggingarreglugerð. Hópurinn tekur til starfa 22. ágúst.

Tillögur Ljóstæknifélagsins byggjast á dönsku byggingarreglugerðinni. Innihalda þær meðal annars kröfur um takmörkun á ljósmengun og kröfur um að dagslýsingar taki mið af því umhverfi sem vistarverur eru í.

„Það er mjög aðkallandi að við förum að girða okkur í brók og gera eitthvað betur hérna. Þetta er svolítið búið að vera villta vestrið, við höfum fengið að gera hvað sem er,“ segir Ásta.

Hún segir þó að reglugerðin muni ekki ein og sér tryggja góða innvist þar sem jafnframt þurfi að passa upp á borgarskipulag. 

„Þó svo að við fáum æðislega byggingarreglugerð, sem sér til þess að það verði gott umhverfi í byggingunum okkar, en leyfum svo að byggja háar byggingar rétt fyrir utan gluggann þá er þetta allt fallið um sjálft sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert