Framvísaði fölsku ökuskírteini

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti annríkt í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu átti annríkt í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umferðarslys varð á Grenimel, en ekki liggja fyrir upplýsingar um alvarleika þess eða slys á fólki að svo stöddu. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Nokkurt annríki var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt en alls voru skráð 68 mál. 

Ungmennin voru farin

Í Hafnarfirði var tilkynnt innbrot í bifreið, en bifreiðin hafði verið skilið eftir ólæst. Þar var einnig tilkynnt um nokkur ungmenni saman á vespum, sem óku glæfralega, hjálmlaus. Þegar lögregla kom á vettvang voru þau þó farin. 

Tilkynnt var um ungmenni uppi á þaki á skóla í Kópavogi, en þau voru farin þegar lögregla kom á vettvang. 

Ítrekað kærður fyrir akstur án réttinda

Tveir ökumenn voru stöðvaðir vegna hraðaksturs á Stekkjarbaka. Tveir voru sektaðir, en skráningarmerki voru fjarlægð af einu ökutæki vegna trygginga. Annars staðar í Kópavogi var ökumaður stöðvaður fyrir of hraðan akstur, en hann ók á 110 km/klst hraða, þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. 

Ökumaður var stöðvaður í Kópavogi sem aldrei hefur öðlast ökuréttindi. Hann framvísaði engu að síður fölsuðu ökuskírteini. Annar ökumaður var svo stöðvaður sem hafði verið sviptur ökuréttindum og ítrekað kærður fyrir akstur án ökuréttinda. Vettvangsskýrsla var rituð en viðkomandi látinn laus að því loknu. 

Þá var tilkynnt um árekstur og afstungu við Smáralind. Annað umferðarslys varð í Kópavogi þar sem skemmdir urðu á ökutækjum, en engin slys á fólki.

mbl.is