„Mistök áttu sér stað sem enduðu svona“

Tveir bílar krömdust undir bílalyftu Herjólfs í gær.
Tveir bílar krömdust undir bílalyftu Herjólfs í gær. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

„Mistök áttu sér stað sem enduðu svona. Þetta er allt í ferli og allir hafa verið yndislegir sem hafa komið að þessu,“ segir Þorvaldur Hafdal Jónsson, eigandi annars bílsins sem kramdist undir bílalyftu Herjólfs í gær.

Bílalyftan fór niður öðrum megin er skipið var að fara frá Landeyjarhöfn til Vestmannaeyja. Tveir bílar krömdust undir lyftunni.

Þorvaldur er búsettur í Vestmannaeyjum og frétti hann af atvikinu frá dóttur sinni, sem var um borð í Herjólfi þegar óhappið átti sér stað. Bíllinn er af tegundinni Hyundai Kona.

Töluverðar skemmdir urðu á bílnum.
Töluverðar skemmdir urðu á bílnum. mbl.is/Óskar Pétur Friðriksson

Upplýsingaflæði hafi verið gott

„Framkvæmdastjórinn hringdi síðan í morgun og ræddi við okkur um að þetta væri komið til trygginganna,“ segir Þorvaldur og bætir við að allt upplýsingaflæði hafi verið mjög fínt.

Segir hann að kallað hafi verið á dóttur sína eftir að bílalyftan fór niður og hún látin vita af atvikinu.

„Nú er verið að bíða eftir að heyra í tryggingunum með hvernig unnið verður úr þessu,“ segir Þorvaldur að lokum.

mbl.is