Menningarnótt haldin eftir þriggja ára hlé

Menningarnótt lýkur með flugeldasýningu sem hægt verður að fylgjast með …
Menningarnótt lýkur með flugeldasýningu sem hægt verður að fylgjast með frá Arnarhóli og víðar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Haldið verður upp á 236 ára afmæli Reykjavíkurborgar laugardaginn, 20. ágúst. Menningarnótt hefur ekki verið haldin síðastliðin tvö ár vegna heimsfaraldurs en nú er komið að því.

Um er að ræða stærsta viðburð ársins í Reykjavík sem er ætlaður öllum borgarbúum og gestum sem vilja taka þátt og skemmta sér.

Menningarnótt verður sett við hátíðlega athöfn á Hörputorgi klukkan 13 á laugardag og þar koma meðal annars við sögu loftfimleikar og Jón Jónsson tónlistarmaður.

Fjölbreytt dagskrá í miðborginni

Heiðursgestir Menningarnætur eru fulltrúar samtakanna Support for Ukraine, Iceland og hafa þau skipulagt fjölbreytta menningar- og fræðsludagskrá í Ráðhúsi Reykjavíkur.

Dagskráin í ár er fjölbreytt og menningarleg en tónlistin skipar stóran sess líkt og fyrri ár. Tónaflóð Rásar 2 verður á Arnarhóli og tónlistarveisla Bylgjunnar í Hljómskálagarðinum. Karnival DJ Margeirs heldur síðan uppi stuðinu við Klapparstíg.

Þá verða 20 matarvagnar á miðbakkanum þar sem boðið verður upp á fjölbreytta rétti.

Menningarnótt lýkur svo með flugeldasýningu klukkan ellefu um kvöldið sem hægt verður að fylgjast með frá Arnarhóli og víðar.

Lokað fyrir akandi umferð en frítt í strætó

Miðborgin verður lokuð fyrir akandi umferð frá klukkan sjö um morguninn og fram yfir miðnætti svo gestir geti notið dagskrárinnar. Gestir eru hvattir til að koma fótgangandi eða hjólandi en einnig verður frítt í strætó.

Þá verður aðeins hægt að leggja rafskútum á ákveðnum svæðum á hátíðarsvæði Menningarnætur. Upplýsingar um svæðin og dagskrána má finna á heimasíðu Menningarnætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert