Mökkurinn rís hærra vegna áttleysu

Hér má sjá mynd sem birtist með til skýringar.
Hér má sjá mynd sem birtist með til skýringar. Ljósmynd/ Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands

„Gosmökkurinn frá Fagradalsfjalli er einkar fallegur á þessum kyrrláta haustmorgni. Í nótt og morgun hefur verið algjör áttleysa yfir gosstöðvunum og fær mökkurinn því að rísa nokkuð upp í andrúmsloftið áður en hann beygir undan vindi.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Edfjalla- og náttúruvárhópi Suðurlands. 

Mismunandi hlutar gosmakkarins

Greina má nokkra mismunandi hluta gosmakkarins, þegar horft er á hann frá höfuðborgarsvæðinu. 

Neðst er enginn mökkur sýnilegur, þar koma gastegundirnar funheitar upp áður en þær blandast köldu andrúmsloftinu. Við það þéttast þær og verða sýnilegar. 

Sjá mátti uppstreymi í morgun á tveimur stöðum. Annars vegar beint frá gosstöðvunum, en hins vegar yfir nýju hraunbreiðunni í Meradölum. Ský myndast svo þar yfir.

Uppstreymið frá hraunbreiðunni er mun veikara en yfir gosstöðvunum og því rís skýið þar þeim mun lægra en skýið frá gosstöðvunum. Hluti uppstreymisins frá hrauninu togast hinsvegar inn í kröftugt uppstreymið frá gosstöðvunum.“

Töluverð gasmengun

Upp að punktalínunni má sjá töluverða gasmengun í andrúmsloftinu og er þar líklega mest um brennisteinsdíoxíð (SO2). Mökkurinn hefur ekki orku í að bera mengunina hærra og í svona kyrrlátu veðri dreifist hún til hliðar þegar ákveðnu „þaki“ í andrúmsloftinu er náð.

Við þau skil er þyngd gastegundina í jafnvægi við þyngd andrúmsloftsins umhverfis gasmökkinn. Hæðin á þessum skilum stýrist af mestu af krafti eldgossins.

Ofan punktalínunnar virðist mökkurinn hinsvegar orðinn nokkuð hrein og hvít gasgufa. 

Í tilkynningunni segir að slíkur mökkur sé að megninu til vatnsgufa, en vatnið sé jafnframt langöflugasti drifkraftur eldgosa, þar sem rúmmál vatns eykst gríðarlega við suðumark. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert