Virðist vera orðið síendurtekið stef

Krotað var yfir skilti Hinsegin daga. Hér má sjá tölustafina …
Krotað var yfir skilti Hinsegin daga. Hér má sjá tölustafina 1488 sem eru gjarnan notaðir af nýnasistum. Hinsegin dagar munu tilkynna verknaðinn til lögreglu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, segist vera orðlaus yfir skemmdarverkunum sem hafa verið framin á skiltum Hinsegin daga.

„Þetta er ömurlegt, algjörlega ömurlegt. Auðvitað vonar maður að þarna búi kannski ekki mikið að baki, en maður getur ekki annað en haldið það þar sem þessi skilaboð hafa auðvitað sterka merkingu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Aðspurður segir hann að ekki sé hægt að líta á verknaðinn sem eitthvað annað en hatursglæp. „Þetta er orðið daglegt brauð þar sem það er skorið á fána eða eyðilagt hluti sem tengjast hinsegin fólki á einhvern hátt.“  

Skemmdarverkin hafa verið tilkynnt til lögreglu að sögn Gunnlaugs. 

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður hinsegin daga.
Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður hinsegin daga. Ljósmynd/Aðsend

Skýr afturför í viðhorfum fólks

Inga Auðbjörg Straumland, verkefnastýri hinsegin daga, segir skemmdarverkin vera ógnvænleg. „Það er skýr afturför í viðhorfum fólks gagnvart hinsegin fólki,“ segir hún og bætir við að það þurfi að skýra mörkin á því hvað má og hvar sleppur tjáningarfrelsinu hvað viðkemur hatursglæpi.

„Við erum uggandi yfir þessu, þetta er orðið síendurtekið stef á nokkrum vikum, búið að skera niður fána á tveimur stöðum og svo þetta. Við tengjum þetta náttúrulega við það að Hinsegin dagar eru sýnilegir og eru sýnilegasta tímabil hinsegin fólks í kringum árið og þá kemur þetta upp.

Þetta virðist strjúka einhverjum öflum í samfélaginu andfæris og þau þurfa að tjá sig með þessum hætti, sem er auðvitað mikið áhyggjuefni.“

Yfirlýsing Hinsegin daga um málið má lesa hér.

Inga Auðbjörg Straumland, verkefnastýri Hinsegin daga.
Inga Auðbjörg Straumland, verkefnastýri Hinsegin daga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert