Mótmæla í örvæntingu og neyð

Kristín Tómasdóttir ræðir við Einar Þorsteinsson, oddvita og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins …
Kristín Tómasdóttir ræðir við Einar Þorsteinsson, oddvita og borgarfulltrúa Framsóknarflokksins í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er enginn sem hefur gaman að þessu. Það er enginn sem er að nenna þessu. Það er engum sem langar til þess að vera að mótmæla þessu. Fólk er að gera þetta í örvæntingu og neyð,“ segir Kristín Tómasdóttir, fjölskyldumeðferðarfræðingur sem er meðal þeirra sem stendur fyrir mótmælum í ráðhúsi Reykjavíkur á morgun.

Mótmæli hefjast klukkan 8.45 á morgun þegar hústökuleikskóli verður settur upp í ráðhúsinu. Tilgangurinn er að sýna að hægt sé að finna lausnir á dagvistunarvandamáli í Reykjavík sé viljinn fyrir hendi.

„Við munum mæta og vera þrýstiafl fyrir Borgarráð. Það á að grípa til einhverra aðgerða strax sem gerir það að verkum að við fáum leikskólapláss strax í september. Við ætlum að sýna fordæmi um að það sé ekki mikið mál að stofna dagvistun ef viljinn er fyrir hendi.“

Greinilega hægt að gera betur og meira

Kristín fer fremst í flokki í mótmælunum en hún segist eiga von á fullt af fólki. Yfir hundrað foreldrar og stuðningsfólk mætti síðast og hún býst ekki við færri núna.

„Það er meiri liðleiki núna en var fyrir viku síðan. Það er augljóst mál að þessi þrýstingur er að skila einhverjum árangri sem segir mér að Reykjavíkurborg hafi ekki verið að gera sitt besta fyrr en við fórum að þrýsta á borgina. Það er greinilega hægt að gera betur og meira. Mér finnst ótrúlegt að við þurfum að vera svona þrýstiafl til að fá þessa grunnþjónustu sem er nauðsynleg til þess að samfélagið virki,“ segir Kristín.

Hún bendir á að komi til þess að vandinn verði ekki leystur þurfi margir foreldrar að minnka við sig vinnu og þannig greiða minna útsvar til borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert