Óvenjulegum öldum spáð í Reynisfjöru

Reynisfjara er einn af vinsælustu áfangastöðum erlendra ferðamanna á Íslandi.
Reynisfjara er einn af vinsælustu áfangastöðum erlendra ferðamanna á Íslandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt að 3,7 metra ölduhæð er spáð í Reynisfjöru í dag. Á morgun er hæð mestu kenniöldu spáð 4,7 metrar. Þykja þetta heldur óvenjulegar öldur.

Greint er frá þessu á veðurvefnum Bliku.

„Þetta er óvenjulega há alda yfir sumartímann. Öldunni veldur djúp lægð sem kemur til með að valda roki og rigningu á Suður- og Vesturlandi,“ segir þar.

Ferðamenn þurfi að passa sig

Fram kemur kemur að dýpt lægðarmiðjunnar verði mest undir 980 hPa sem sé fáheyrt yfir sumartímann. Þá megi búast við mikilli rigningu með lægðinni. 

„Ferðamenn verða að fara varlega í Reynisfjöru, en líklegt hlýtur að teljast að fólk stoppi styttra við þar í dag heldur en vanalega. Rokið og úrhellið sér um það.

Eins þurfa þeir sem eru á húsbílum eða með hjólhýsi að fylgjast vel með hviðuspánni. Sér í lagi ef fara á undir Hafnarfjall eða fyrir Kjalarnes.“

mbl.is