Mikill áhugi er fyrir hendi hjá Bandaríkjaher á aðstöðu á Austurlandi til að auðvelda eftirlit með ferðum rússneskra kafbáta um Norður-Atlantshafið, en fyrir liggur að umferð kafbáta hefur stóraukist á síðustu árum.
Þetta segir Hjörtur J. Guðmundsson, sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur, í samtali við Morgunblaðið.
Robert Burke, þáverandi yfirmaður bandaríska sjóhersins í Evrópu, ræddi við Morgunblaðið í lok október 2020. Sagði hann áhuga vera fyrir hendi að fjölga þjónustusvæðum fyrir sjóherinn á Íslandi.
Horft væri sérstaklega til Austurlands sem væri hentugri staðsetning en höfuðborgarsvæðið vegna nálægðar við svæðin þar sem rússneskir kafbátar athöfnuðu sig reglulega. Slík aðstaða myndi einnig styðja við öflugri leit og björgun á hafsvæðinu umhverfis landið.
Spurður hvort ekki megi gera ráð fyrir því að aukin umsvif Bandaríkjahers á Austurlandi myndu styrkja stoðir atvinnulífs á svæðinu segir Hjörtur að þótt ákvarðanir í varnarmálum sem slíkar snúist ekki fyrst og fremst um efnahagsleg áhrif þeirra liggi engu að síður fyrir að slíkar ákvarðanir gætu hæglega haft í för með sér jákvæð áhrif í atvinnumálum.
Lesa má umfjöllun Morgunblaðsins í heild sinni í útgáfu dagsins og á innskráningarsvæði hér á mbl.is: