„Við fögnum því að eitthvað sé gert en tillögurnar duga ekki til. Það skortir raunhæfar tímaáætlanir, áætlanir um mönnun og tölfræði um það hversu langt þetta nær til að stytta biðlistann til framtíðar,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, um tillögur meirihluta borgarráðs að leikskólavandanum.
Mbl.is ræddi við Hildi og flokkssystur hennar, Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur og Mörtu Guðjónsdóttur, að lokinni kynningu borgarráðs á tillögum þess við leikskólavandanum í borginni.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram tólf tillögur að lausn á vandanum.
Marta tekur undir með Hildi og fagnar því að borgin kynni loksins tillögur að lausn á vandanum. Hún hefði þó viljað sjá tillögur Sjálfstæðisflokksins verða að veruleika.
„Það að vísa tillögum okkar til einhverrar rýni og skoðunar hræðir mig, sporin hræða, vegna þess að þegar tillögum er vísað áfram þá vill það oft dragast að vinna úr þeim,“ segir Marta og bætir við:
„Miðað við þá stöðu sem er komin upp núna og þetta ákall um að þessi vandi verði leystur þá hefði borgarráð átt að samþykkja allar þessar tillögur í dag. Þær eru allar til þess fallnar að leysa vandann, hver með sínum hætti. Það sem skortir sérstaklega í þessar tillögur sem meirihlutinn leggur hér fram er hvernig við ætlum að leysa mannekluna, en okkar tillögur, margar hverjar, eru með lausnir um það hvernig væri hugsanlega hægt að leysa mannekluna og þannig kannski bjóða þau leikskólapláss sem nú þegar eru laus.“
Líkt og mbl.is greindi frá í gær eru um 200 laus pláss á leikskólum í borginni en ekki er hægt að nýta þau vegna manneklu.
Að mati Hildar koma tillögur meirihlutans heldur seint.
Segir hún að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bent meirihlutanum á að loforðið um að öllum 12 mánaða börnum yrði tryggt leikskólapláss í haust myndi ekki ganga upp og meirihlutann hafa gengist við því í júní. Því sé sérstakt að vinna að lausnum á vandanum hafi ekki hafist strax, heldur hafi þurft mótmæli foreldra til að koma þeirri vinnu af stað.
Þær Hildur, Marta og Ragnhildur Alda vilja allar sjá fjölbreyttari lausnir við leikskólavandanum. Nefna þær að hægt væri að styðja frekar við sjálfstætt starfandi leikskóla, fjölga foreldrareknum leikskólum og bjóða vinnustöðum að opna daggæslu eða leikskóla á sínum vinnustað.
„Grunnhugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins er þetta frjálslynda viðhorf. Við ættum ekki að reyna að sjá fyrir allar mögulegar lausnir, við viljum tryggja að kerfið hleypi þessu lausnum að. Fólk á skilið þjónustuframboð, að geta valið það sem hentar þeirra fjölskyldu best,“ segir Ragnhildur Alda.