Um 200 leikskólapláss laus en ónýtanleg

Frá fundi ráðsins í morgun.
Frá fundi ráðsins í morgun. mbl.is/Hákon Pálsson

„Niðurstaða fundarins er sú að það mun ekki takast að bjóða 12 mánaða börnum leikskólavist í haust. Meðalaldur þeirra barna sem fá innritun á leikskóla fram að áramótum verður 14 til 15 mánuðir.“

Þetta segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í skóla- og frí­stundaráði Reykja­vík­ur­borg­ar, í samtali við mbl.is að loknum fundi skóla- og frístundaráðs í dag.

Marta kallaði eftir aukafundi vegna leikskólavandans en ráðið átti að koma saman 22. ágúst.

Alls er 171 stöðugildi laust á leikskólum borgarinnar.
Alls er 171 stöðugildi laust á leikskólum borgarinnar. mbl.is/Unnur Karen

171 stöðugildi laust

Marta segir að á fundinum hafi einnig komið fram að um 200 leikskólapláss séu laus en ekki sé hægt að nýta þau vegna manneklu. Þá sé alls 171 stöðugildi laust.

„Þess vegna teljum við nauðsynlegt að tillögur okkar sem snúa að því að mæta manneklunni verði teknar til meðferðar sem fyrst,“ segir Marta en eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag hefur Sjálfstæðisflokkurinn lagt fram tillögur að lausnum á leikskólavandanum. Greint var frá fimm þeirra í blaðinu í dag en tvær hafa síðan bæst við. 

Skóla- og frístundaráð kom saman á aukafundi í dag.
Skóla- og frístundaráð kom saman á aukafundi í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Upplýsingar verði aðgengilegar

Auk þeirra tillaga sem þegar hefur verið greint frá er lagt til að upplýsingar um laus leikskólarými og stöðu biðlista verði settar í svokallað mæliborð á vef Reykjavíkurborgar. Þar komi fram aðgengilegar upplýsingar eftir leikskólum og hverfum um stöðu biðlista og laus leikskólarými. Jafnframt er lagt til að fé fylgi barni á leikskólaaldri og stuðlað verði að því að sjálfstætt starfandi leikskólum fjölgi.

Að sögn Mörtu var vel tekið í allar tillögurnar. Þær hafi þó ekki verið samþykktar heldur vísað til borgarráðs. 

Tillögurnar munu ekki sjálfkrafa koma til meðferðar á fundi borgarráðs á morgun þar sem að samkvæmt reglum hefðu þær þurft að berast tveimur sólarhringum fyrir fundinn. Marta segir að Sjálfstæðisflokkurinn muni leggja til að þær verði teknar inn með afbrigðum á fundinum á morgun. 

Þá segir Marta að á fundinum hafi meirihlutinn kynnt tillögur sínar sem verða lagðar fyrir borgarráð á morgun. Þær hafa ekki verið kynntar almenningi.

mbl.is