Tóku út öryggi leiksvæða í Kópavogi

Ýmsar athugasemdir voru gerðar í skýrslunni.
Ýmsar athugasemdir voru gerðar í skýrslunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umhverfissvið Kópavogs og Miðstöð slysavarna barna hefur lagt fram skýrslu um öryggi leiksvæða barna í Kópavogi. Þar koma fram ýmsar athugasemdir um atriði sem betur mættu fara, en þó þykir ástand leikvalla í bæjarfélaginu nokkuð gott á landsvísu. 

Skýrslan var lögð fram á fundi menntaráðs Kópavogs í gærm en hún var unnin í kjölfar fyrirspurnar Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur, bæjarfulltrúa Pírata, um ráðstafanir vegna alvarlegs slyss í klifurkastala við Snælandsskóla. 

Í upphafi árs 2021 fjallaði mbl.is um slysið, þar sem ungur drengur féll úr þriggja metra hæð og brotnaði á hryggjarlið. Við athugun kom í ljós undirlagið uppfyllti ekki kröfur um falldempun í frostinu. 

Breytingar á reglugerð fyrirhugaðar

Fyrirhugaðar eru breytingar á reglugerð um öryggi leiksvæða og leikvallatækja og eftirlits með þeim. Herdís Storgaard, forstöðumaður Miðstöðvar slysavarna barna, hefur verið fengin til að leiða þá vinnu. 

Hún er jafnframt einn höfunda að baki skýrslunni. Þar lagði hún til að tekin yrði í notkun rekstrarhandbók sem gera sveitarfélögum auðveldara að halda utan um rekstur leiksvæða. Koma þurfi upplýsingum til íbúa bæjarins um leiksvæðin og öryggi barna á þeim auk þess sem æskilegt væri að setja upp merkingar á leiksvæðum um staðsetningu. 

Framkvæma þarf reglubundnar skoðanir á leiktækjum grunn- og leikskóla og halda þarf námskeið fyrir starfsfólk grunn- og leikskóla, um hvernig þessar skoðanir skulu framkvæmdar. 

Falldempunarmælingar miðast ekki við kulda

„Falldempunarmælingar eru hreint ekki algengar hérlendis og því er reynsla á því sviði takmörkuð. T.d. er aðeins einn aðili með löggilt tæki og áratuga þekkingu á notkun þess og túlkun niðurstaðna. Eins og fyrr sagði var gerð falldempunarmæling við leiktæki í Snælandsskóla í nóvember 2020, en vikurnar þar á undan var mikill frostakafli. Við þessar aðstæður uppfyllt fallvörnin aðeins um 80% af því sem vottunin sagði til um, en vottunarmælingar eru gerðar innandyra á erlendri vottunarstofu í 20-25°C hita.“

Þetta kemur fram í skýrslunni. En við slysið árið 2021 var frost og fallvörnin virkaði því ekki sem skyldi, þrátt fyrir að tækið væri vottað samkvæmt gildandi stöðlum.

„Almennt eru dempunarmælingar erlendis ekki gerðar ef lofthiti er undir 5°C og því eru litlar heimildir til um áhrif vetrarveðra á leiksvæði. Herdís Storgaard hefur leitað upplýsinga um þetta á Norðurlöndunum og kemur á óvart að ekki virðist hafa verið hugsað mikið út í þessi atriði, þ.e. að falldempun sé nægileg allt árið á norðurhjara heims, heldur aðeins gengið út frá því sem segir í vottuninni. Í einhverjum tilvikum í Skandinavíu eru sum leiktæki reyndar ekki ætluð til notkunar að vetrarlagi.“

Helstu orsök slysanna

Eftir athugun á slysum á leiksvæðum barna á landinu öllu kom í ljós að eftirfarandi þættir voru langoftast orsök slysanna:  Skortur á viðhaldi leiktækja, öryggisundirlag uppfyllir ekki gildandi kröfur eða er ekki hreinsað, grjót og spýtur sem börn draga inn á öryggissvæðið er ekki fjarlægt.

Þá getur einnig komið fyrir að leiktæki standist ekki staðla, börn noti tæki sem ekki hæfa aldri þeirra eða breytingar verða á tækjum sem skapast í leik, t.d. bönd bundin á tæki eða farið með leikföng í leiktækin. Loks eru grindverk og hlið oft ekki örugg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert