„Tímaspursmál hvenær það verði fleiri svona slys“

Leiktækið sem um ræðir.
Leiktækið sem um ræðir. Ljósmynd/Aðsend

Hrönn Óskarsdóttir, móðir sex ára drengs sem brotnaði á hryggjarlið þegar hann féll úr kastala á skólalóð Snælandsskóla, segist hafa talið leiktæki á skólalóðum öruggari en raun ber vitni. 

„Í einfeldni minni hélt ég að reglur um leiktæki á skólalóðum væru svo strangar að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur,“ skrifar Hrönn í pistli sínum á Facebook. „Þar til ég fékk símtalið í byrjun nóvember að Patrik 6 ára hefði dottið aftur fyrir sig úr kastalanum á skólalóðinni, á bakið, og gæti ekki hreyft fætur, sjúkrabíll væri á leiðinni,“ skrifar Hrönn. 

Hrönn segir það hafa verið mikið áfall að fá slíkt símtal. Hryggjaliður Patriks var brotinn en hann fékk til allrar hamingju máttinn aftur í fæturna og jafnar sig vonandi að fullu. Í samtali við mbl.is segir Hrönn að Patrik hafi síðastliðnar átta vikur „verið í bómull“. Hann sé fyrst núna að fara af stað aftur, geta farið út í frímínútur og á fótboltaæfingar. „Hann hefur verið með náladofa í löppum og illt í bakinu en við vonumst til þess að brotið sé gróið. Svo leiðir tíminn bara í ljós hvort þetta hafi meiri afleiðingar,“ segir Hrönn. 

Brá þegar hún sá leiktækið

Leiktækinu hefur nú verið lokað í kjölfar niðurstöðu fallprófs. 

„Þegar ég fór og skoðaði kastalann sem hann datt úr brá mér, þessi kastali er ætlaður börnum frá 5 ára. Fallhæðin þar sem hann datt er 3 metrar frá jörðu, sem samkvæmt stöðlum er bara allt í lagi fallhæð fyrir 5 ára börn ef það eru gúmmímottur undir.“

„Það var frost Þegar slysið varð og þegar gerð var fallmæling eftir slysið (sem er vanalega gerð á vorin) kom i ljós að gúmmímotturnar verða glerharðir í frosti og eru falskt öryggi. Fallhæðin má ekki vera meiri en 2.5 metrar í frosti,“ segir Hrönn. 

Fjölskyldan hafi reynt að fá tækið dæmt ólöglegt til að koma í veg fyrir að fleiri börn slasi sig í sambærilegu leiktæki. Niðurstaðan var að reglur um fallfjarlægð á milli leiktækja gilda ekki ef um sama leiktækið er að ræða. 

„Börn mega semsagt detta og slasa sig lífshættulega í sama leiktækinu en ekki tveimur aðskildum. Eins og sést þá eru þessi leiktæki ekki föst saman en það er selt sem sama tækið og það er nóg til að falla ekki undir þá reglu. Ég veit að svona leiktæki er víða. Skoðið leiktækin í kringum ykkur, farið fram á fallpróf í frosti ef ykkur finnst þau of há. Getum við ekki öll reynt að hjálpast að við að útrýma þessum slysagildrum á skólalóðum? Ég veit að það er dýrt að laga öll þessa tæki og það er enginn að fara að gera það að fyrrabragði. En gefum ekki afslátt af slysavörnum barna okkar og verum vakandi yfir umhverfi þeirra,“ segir Hrönn. 

Gæti hafa farið verr 

„Svona tæki eru út um allan bæ og af því að við fengum það ekki í gegn að það yrði dæmt ólöglegt þá halda þessi tæki áfram að vera út um allt,“ segir Hrönn. „Þetta hefði geta farið miklu verr, það var í raun lán í óláni að hann hafi ekki slasast meira.“

Hrönn segist hafa heyrt af því að fleiri slys hafi orðið í sambærilegum tækjum. 

„Bara í þessu leiktæki hefur barn fengið heilahristing. Ég hef verið að heyra af börnum sem eru að detta úr svona kastölum, það er ekkert fyrir, ekkert til að verja þau. Það er í rauninni bara tímaspursmál hvenær það verði fleiri svona slys. Ef maður horfir á þennan kastala sér maður að hann er alveg galinn fyrir fimm ára börn,“ segir Hrönn. 

Kæru vinir. Mig langar að benda ykkur sem eigið yngri börn að skoða vel leiktækin sem eru á skólalóðum þeirra. Í...

Posted by Hrönn Óskarsdóttir on Mánudagur, 4. janúar 2021
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert