Málarekstri gegn Sjólasystkinum lokið

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Finnur Þór Vilhjálmsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, lýsti því yfir við upphafi þinghalds í gærmorgun að fallið hefði verið frá öllum ákærum á hendur bræðrunum Haraldi Reyni og Guðmundi Steinari Jónssonum, oft kenndum við útgerðarfélagið Sjólaskip. Málið var því fellt niður.

Þar með lauk málarekstri sem hefur farið fram hjá skattrannsóknarstjóra, skattayfirvöldum, héraðssaksóknara og dómstólum í tæp 13 ár. Rannsókn á starfsemi og rekstri Sjólaskipa, fyrrnefndum bræðrum og tveimur systrum þeirra, hófst haustið 2009. Áður hafði hluta málanna verið vísað frá dómi en systurnar sýknaðar af þeim sökum sem á þær voru bornar. Eini ákæruliðurinn sem eftir stóð sneri að því hvort raunveruleg stjórn félaga í eigu bræðranna hefði verið á Íslandi og þeir því borið skattskyldu hér á landi en ekki erlendis. Sem fyrr segir var fallið frá þeim lið í gær og telst öllum málunum því lokið.

Haraldur segir í samtali við Morgunblaðið í dag að þungu fargi sé af sér létt með niðurstöðu gærdagsins.

„Það er mikill léttir að þessu skuli vera lokið. Það tekur á að vera með réttarstöðu sakbornings í svo langan tíma,“ segir Haraldur og bætir því að þau systkinin hafi verið þess fullviss að hjá þeim lægi engin sök.

Hann segir að málið hafi kostað þau tíma og fjármagn, sem ekki verði endurheimt, en það eigi einnig við um ríkisvaldið sem rekið hafi svo umsvifamikið mál í langan tíma. Þó sé ólíklegt að nokkur muni bera ábyrgð á því.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert