Notkun ADHD-lyfja eykst um tæp 20 prósent

Ritalin Uno er eitt þeirra lyfja sem inniheldur metýlfenídat og …
Ritalin Uno er eitt þeirra lyfja sem inniheldur metýlfenídat og er notað við ADHD Ljósmynd/Friðrik Tryggvason

Notkun ADHD-lyfja jókst um rúm 19 prósent á milli áranna 2020 til 2021 og nam notkunin rúmlega 51 dagskammti á hverja 1.000 íbúa miðað við 43 dagskammta árið áður.

Mest er notkun ADHD-lyfja meðal drengja á aldinum 10 til 14 ára, en á síðasta ári fengu 166 af hverjum 1.000 drengjum á þessum aldri ávísað slíkum lyfjum að minnsta kosti einu sinni. 94 af hverjum 1.000 stúlkum á sama aldursbili fengu ávísað ADHD-lyfjum. Þetta er meðal þess sem kemur fram Talnabrunni – fréttabréfi landlæknis um heilbrigðisupplýsingar.

Ljóst sé að leita þurfi leiða til að skýra þá þróun sem orðið hefur í notkun þessara lyfja undanfarinn áratug. Mikilvægt sé þó að öll umræða um notkun ADHD-lyfja sé á faglegum og hófstilltum  nótum, að segir í fréttabréfinu.

„Stemma þarf stigu við mögulegri of– eða misnotkun umræddra lyfja án þess þó að þær aðgerðir hafi neikvæðar afleiðingar fyrir þá fjölmörgu sem nauðsynlega þurfa á lyfjunum að halda í daglegu lífi.“

Notkun hefur aukist meðal kvenna

Á árinu 2021 fengu alls 18.413 einstaklingar ávísað ADHD-lyfjum, þar af 6.428 börn og 11.985 fullorðnir. Það samsvarar því að um 49 af hverjum 1.000 íbúum hafi fengið ávísað slíkum lyfjum á síðasta ári. Það tæp 15 prósent aukning frá árinu 2020.

Hlutfall barna sem fengu ávísað slíkum lyfjum er mun hærra en hjá fullorðnum, en 77 af hverjum 1.000 börnum fengu ávísað lyfjunum samanborið við 41 af hverjum 1.000 fullorðnum. Aukningin nemur þá um 11 prósent hjá börnum en um 17 prósent hjá fullorðnum.

Karlar eru meirihluti notenda ADHD-lyfja en kynjamuninn má að öllu leyti rekja til þess að notkun lyfjanna er tvisvar sinnum meiri hjá drengjum en stúlkum. Kynjamunurinn er óverulegur hjá fullorðnum en notkun ADHD-lyfja hjá konum hefur aukist meira en hjá körlum á síðustu árum og eru konur nú meirihluti fullorðinna notenda. 44 konur af hverjum 1.000 konum fengu ávísað slíkum lyfjum árið 2021 á móti 39 af hverjum 1.000 karlmönnum.

35 prósent barna fá líka melatónín

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að melatóníni, sem er náttúrulegt svefnhormón, sé ávísað samhliða ADHD-lyfjum vegna meðhöndlunar á svefnröskunum, sem er algengur fylgikvilli ADHD. Eins getur lyfjameðferð við ADHD einnig valdið svefnröskunum.

Af þeim 18.413 einstaklingum sem fengu ávísað ADHD-lyfjum árið 2021 fengu 3.562 einstaklingar einnig ávísað melatóníni. Þetta samsvarar því að 19 prósent þeirra sem eru á ADHD-lyfjum fái einnig ávísað melatóníni.

Samhliða notkun melatóníns er mun meiri hjá börnum en um 35 prósent barna á ADHD-lyfjum fengu einnig ávísað melatóníni árið 2021. Á meðal fullorðinna notenda ADHD-lyfja var hlutfallið 11 prósent.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert