Gróðureldar meiri ógn með aukinni skógrækt

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Ljósmynd/Aðsend

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað stjórn yfir samráðsvettvangi er varðar þekkingarsköpun um áhrif loftslagsbreytinga. Er tilgangurinn að öðlast yfirsýn yfir þá þekkingu sem við höfum um málefnið og þá þekkingu sem þörf er á. Þetta kom fram á ráðstefnu á Grand hótel fyrr í dag þar sem fjallað var um áhrif loftslagsbreytinga á sveitarfélögin í landinu og aðlögunaraðgerðir.

Enginn vafi leikur á að áhrif loftslagsbreytinga munu auka þá hættu sem stafar af náttúruvá á Íslandi. Úrkomuákefð eykst með tilheyrandi hættu á flóðum og skriðuföllum. Þá munu lengri sumur, þurrkar og aukin skógrækt á Íslandi kalla á meiri viðbúnað vegna gróðurelda, svo eitthvað sé nefnt.

Fulltrúar sveitarfélaganna í pallborði.
Fulltrúar sveitarfélaganna í pallborði. mbl.is/Hólmfríður María

Fulltrúar fjögurra sveitarfélaga, þau Sigríður Ingvarsdóttir, bæjarstjóri Fjallabyggðar, Brynja Dögg Ingólfsdóttir, umhverfis- og skipulagsstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar, Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar og Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, tóku þar öll til máls og lýstu áhrifum sem loftslagsbreytingar hafa, og munu hafa, á heimabyggðir þeirra. 

Kölluðu fulltrúarnir eftir meiri aðkomu ríkisins í þeim málum. Var þá m.a. talin þörf á auknum framlögum til að fjármagna kostnaðarsamar aðgerðir og áhættumati fyrir sveitarfélögin í tengslum við loftslagsbreytingar.

Mjög alvarlegar afleiðingar

Þá vakti Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, athygli á mikilvægi þess að efla Landhelgisgæsluna þar sem stofnunin gegni m.a. mikilvægu hlutverki í slökkvistarfi víðs vegar um landið. Nefndi hann það m.a. í samhengi við skógrækt en samhliða því sem greinin fer vaxandi verður hætta á gróðureldum sífellt stærra vandamál.

„Við höfum ekki verið mikið með augun á þeirri hættu sem stafar af gróðureldum. Það er nokkuð sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar – augljóslega,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samtali við mbl.is að ráðstefnu lokinni.

„Við þurfum að taka mið af því í okkar skipulagi og vera tilbúin með viðbúnað ef að það kemur fyrir.“

Þurfum að hafa augun á hækkun sjávarstöðu

Aðspurður hvaða aðgerðir séu nú mest aðkallandi til að bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga, segir Guðlaugur erfitt að nefna eitthvað eitt enda séu áhrifin víðtæk. Það liggur þó fyrir að Íslendingar þurfi að hafa hraðar hendur.

„Það er á mjög mörgu að taka í þessu. Sumt er nær í tíma. Annað er eitthvað sem kemur síðar en samt sem áður tiltölulega fljótt, eins og hækkun sjávarstöðu sem sérfræðingar segja að við þurfum að hafa augun á og taka mið af í okkar ákvörðunum. Hækkun á hita er langmest á norðurslóðum og þar sem er ís þannig okkur liggur meira á heldur en öðrum,“ segir Guðlaugur Þór.

Slagur tekinn um orkuskiptin

Ráðherra segir þó stóra málið – þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum, vera orkuskiptin.

„Við erum rosalega heppin að við fórum í orkuskiptin. Það voru ekki við sem tóku ákvörðun um það, það voru þeir sem eru á undan okkur. Það var alveg tekinn slagur um það. Það er enn þá gasstöð hérna – eða það sem er eftir af henni, við Hlemm.

Það er vegna þess að það var ekki farið beint úr kolum í hitaveitu. Það var líka farið í gas. Og menn tókust á um það hvora leið hefði átt að fara. Sem betur fer urðu þeir ofan á sem að töluðu fyrir hitaveitunni. En við höfum gert lítið í hitaveitunni síðasta áratug. Mjög lítið. Og við þurfum að setja aukinn kraft í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert