„Sandkassaleikur við tjörnina“

Heimdallur segir það vekja furðu að hvergi sé minnst á …
Heimdallur segir það vekja furðu að hvergi sé minnst á biðlistavandann í meirihlutasáttmála borgarstjórnarflokkanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Heimdallar telur framgöngu borgaryfirvalda í leikskólamálum minna á sandkassaleik við Tjörnina við Ráðhús Reykjavíkur og að borgarstjóri hafi blekkt borgarbúa með innantómum loforðum.

„745.000 mínútum síðar. Að meðaltali þarf barn að vera til í 745.000 mínútur eða 17,5 mánuð til þess að fá boð um pláss á leikskóla. Í kjölfarið tekur við næsta biðtímabil þar til barnið fær raunverulega að byrja á leikskóla,“ segir í fréttatilkynningu félagsins sem ber yfirskriftina „Sandkassaleikur við Tjörnina“.

Vekur félagið athygli á því að Samfylkingin hafi verið í meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur samfleytt frá árinu 2010 og Viðreisn frá árinu 2018, en eitt helsta kosningaloforð Samfylkingarinnar árið 2018 hafi verið að tryggja leikskólagöngu fyrir 12 til 18 mánaða börn.

Ekki minnst á biðlistavandann í meirihlutasáttmála

„Furðu vekur að í yfir 30 blaðsíðna samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar kemur orðið leikskóli aðeins 5 sinnum fyrir. Þá er hvergi fjallað um biðlistavandann, hvernig eigi að taka á honum og hver séu markmiðin um innritun barna við ákveðinn aldur, svo sem 12 mánaða líkt og lofað var,“ segir þar. 

Mótmæltu foreldrar ástandinu í Ráðhúsinu í þriðja skipti á meðan á borgarráðsfundi stóð í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert