Notendur ofsækja fólk í gegnum íslenska síðu

Málið hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum.
Málið hefur vakið athygli á samfélagsmiðlum. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska fyrirtækið Internet á Íslandi hf. hefur samþykkt lénið Kiwifarms.is en síðan Kiwifarms er afar umdeild. Notendur hennar eru þekktir fyrir að ofsækja trans og hinsegin fólk. Að minnsta kosti þrír hafa svipt sig lífi í tengslum við ofsóknir notenda síðunnar. 

Morguninn 5. ágúst þegar Clara Sorrenti, trans aðgerðarsinni sem heldur úti vinsælum streymum á Twitch, opnaði augun blasti við henni riffill lögreglu. Fyrr um morguninn hafði óþekktur einstaklingur þóst vera hún og sent tölvupóst í hennar nafni á bæjarstjórn London í Ontario-fylki í Kanada þar sem stóð að hún hefði myrt móður sína og væri á leið niður í ráðhús til þess að fremja fjöldamorð. Wired greinir frá.

Sorrenti var fórnarlamb grimmra árása notenda vefsíðunnar Kiwi Farms, en stafræna samfélagið þar er þekkt fyrir að áreita og hrella þekkt fólk, jafnt vinsæla tölvuleikjaspilara og allt upp í þingmenn. Samfélagið er einnig þekkt fyrir að leka persónuupplýsingum og senda sérsveit lögreglu til fórnarlamba sinna, með því að þykjast vera það. Netsamfélagið á síðunni er þekkt fyrir að áreita trans og hinsegin fólk sérstaklega.

Þrír látið lífið

Að minnsta kosti þrír hafa svipt sig lífi vegna stöðugra árása notenda Kiwi Farms. Sorrenti setti af stað herferð til þess að fá síðuna tekna niður og beindi í því skyni sérstaklega sjónum að fyrirtækinu Cloudflare sem sér um netöryggismál síðunnar. Þann 31. ágúst sagði forstjóri Cloudflare óbeint að fyrirtækið ætlaði ekki að fjarlægja síðuna og tók sem dæmi að fjarskiptafyrirtæki loki ekki á notendur sem segja rasíska hluti í símann.

Aðeins fjórum dögum seinna ákvað Cloudflare að hætta að sjá um netöryggismál Kiwi Farms eftir mikinn þrýsting frá netverjum og áframhaldandi ofsóknir Kiwi Farms gegn Sorrenti.

Íslenskir netverjar vilja eyða léninu

Josh Moon, stofnandi Kiwi Farms, sagði í viðtali við NBC að líklega væri óraunhæft að síðan héldist stöðugt uppi. Fyrirtækið VanwaTech hefur ákveðið að hlaupa í skarðið fyrir Cloudaflare en það er þekkt fyrir að stunda viðskipti við nýnasista og öfgamenn. 

Í dag heimilaði íslenska félagið Internet á Íslandi hf. lénið Kiwifarms.is og er nú þessi síða, sem hefur verið úthýst víða um heim, rekin hér á landi. Málið hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum og er kallað eftir því að lénið verði tekið niður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert