Borin inn og út úr strætó

Líney Sigurðardóttir hefur ferðast allan kvarðann í þjónustulund síðustu daga …
Líney Sigurðardóttir hefur ferðast allan kvarðann í þjónustulund síðustu daga og var ákaflega ánægð með þjónustu vagnstjóra leiðar 79 hjá strætó í gær sem hreinlega bar hana á höndum sér. Ljósmynd/Aðsend

„Hann sagði mér að hann væri fyrrverandi „professional football player, strong man“ og ekkert mál að halda á „lady“,“ segir Líney Sigurðardóttir, íbúi á Þórshöfn á Langanesi, sem sagði sínar farir ekki sléttar í Morgunblaðinu og hér á mbl.is eftir að hún varð fyrir því óhappi að fótbrotna á leið heim úr réttum um helgina og mætti í kjölfarið viðmóti sem kom flatt upp á hana á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Nú ber hins vegar svo við að Líney nýtur hinnar persónulegustu þjónustu af hálfu Strætó eins og berlega kom í ljós í gærkvöldi þegar ökumaður leiðar 79 bar hana hreinlega á höndum sér.

„Dásamlegur strætóbílstjóri við Hof á Akureyri lyfti mér upp í bílinn, ákvað hvaða sæti væri best og spurði oft á leiðinni „are you OK lady?“,“ segir Líney af ferðalaginu frá Akureyri til Húsavíkur um klukkan 19 í gærkvöldi.

Suðrænn fyrrverandi atvinnumaður

„Hann spurði hvort ég ætlaði til Húsavíkur og sagðist með gleði keyra mig heim að dyrum ef því væri að skipta, ég þyrfti þá ekki að vera að brölta milli bíla á stoppistöðinni,“ heldur Líney frásögninni áfram og fóru leikar svo að vagnstjórinn greiðvikni, fyrrverandi atvinnumaður í knattleikum og „fremur suðrænn í útliti“ að sögn Líneyjar, ók heim að dyrum bróður hennar þar sem þeir vagnstjórinn hjálpuðu henni í sameiningu út úr vagninum.

Fótur Líneyjar í spelku frá Össuri, varla kjörið ástand til …
Fótur Líneyjar í spelku frá Össuri, varla kjörið ástand til strætisvagnaferðalaga. Ljósmynd/Aðsend

„Nokkur ungmenni voru í strætisvagninum og þau tóku þessum útúrdúr bara vel. Mér finnst sjálfsagt að nefna það sem vel er gert og hrós gærdagsins fær þessi erlendi strætóbílstjóri,“ segir Líney.

Blaðamaður forvitnast að lokum um ástand sjúklingsins eftir slæma byltu um helgina. „Það er þokkalegt á meðan hnéð hreyfist ekki. Ég fer um húsið í skrifstofustól á hjólum þegar ég þarf, með fína og fokdýra spelku frá Össuri,“ segir Líney Sigurðardóttir að skilnaði, öll að koma til.

mbl.is